„Með því að horfa yfir sviðið gætum við valið ungan alheim sem býður upp á ný heimkynni. Við myndum velja alheim með stöðugt efni, eins og atóm, sem er nógu ungur til að stjörnur geti myndað ný sólkerfi og kveikt líf. Því gæti hin fjarlæga framtíð, í stað þess að vera endastöð fyrir vitiborið líf, boðið upp á ný heimkynni. Þá lýkur sögunni ekki með endalokum alheimsins.“
Þannig kemst bandaríski vísindamaðurinn Michiu Kaku að orði í bók sinni Framtíð mannkyns sem komin er út hjá Uglu í íslenskri þýðingu Baldurs Arnarsonar, Gunnlaugs Björnssonar og Sævars Helga Bragasonar.
Rætt er við Gunnlaug í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins og við blasir að spyrja hann fyrst, hvort við séum á leið út í geim?
„Það fer eftir því hvern þú spyrð,“ svarar hann hlæjandi. „Sumir eru sannfærðir um að það sé eina leiðin til að bjarga mannkyninu, að færa sig milli hnatta í sólkerfinu, meðan aðrir telja of flókið mál að halda fólki á lífi við aðstæður sem eru okkur framandi. Og spyrja: „Er það þess virði að reyna?“ Eins og við vitum þá er mannkynið viðkvæmt fyrir áreiti og hnjaski. Þá svarar hinn hópurinn: „Það skiptir ekki máli ef þetta er eina hugsanlega leiðin til að bjarga mannkyninu.“ Við höfum með öðrum orðum engu að tapa.“
Kaku heldur því fram í bókinni að mannkynið geti þróað sjálfbæra siðmenningu í geimnum en til að svo megi verða þurfi maðurinn að laga sig að breyttum aðstæðum og jafnvel eftirláta háþróuðum þjörkum að finna ný heimkynni. Sem kunnugt er hafa stórveldi jafnt sem auðjöfrar þegar sett stefnuna á Mars.
„Það er í undirbúningi,“ segir Gunnlaugur, „þó það verði ekki alveg á næstunni; nema menn ætli bara að fara aðra leiðina. Það getur verið erfitt að finna fólk í svoleiðis ævintýri.“
Að dómi Gunnlaugs er raunhæfara að gera tunglið að áfangastað á leiðinni, það er bækistöð, þaðan sem lagt yrði upp í geimferðir til Mars og jafnvel víðar. „Kaku sér fyrir sér að menn byggi upp mannaða bækistöð á löngum tíma á tunglinu og þaðan yrðu geimferðirnar síðan stundaðar. Langtímamarkmiðið í augnablikinu er Mars sem er raunhæft vegna þeirra miklu tækniframfara sem orðið hafa á ekki svo löngum tíma. Þetta hefði þótt óhugsandi fyrir tuttugu árum eða svo. Aðrar eins breytingar geta auðveldlega átt sér stað á næstu tíu til tuttugu árum en lykilatriðið í þessu öllu saman verður hér eftir sem hingað til áhættan.“
– En þetta færist stöðugt nær?
„Heldur betur. Það sjáum við til dæmis á frumkvæði auðkýfinga á borð við Elon Musk og Jeff Bezos,“ segir Gunnlaugur en fyrirtæki þess fyrrnefnda, SpaceX, var beinlínis stofnað til að byggja upp nýlendu á Mars. „Þeir hafa raunar ekki enn sent menn alla leið út í geim en klárlega skotið þeim upp í rjáfur.“
Vegna endurnýtingar geimflauga SpaceX er orðið miklu ódýrara að fljúga út í geim, auk þess sem menn eru reynslunni ríkari eftir hvert og eitt verkefni. „Fjárhagslega er þetta að verða viðráðanlegra, sem skiptir auðvitað miklu máli,“ segir Gunnlaugur, „og menn þess vegna farnir að tala um ennþá lengri vegalengdir í þessu sambandi. Það eru djúpar og skemmtilegar pælingar en varla raunhæfar enn sem komið er. En eins og ég gat um áðan eru menn fljótir að finna nýjar leiðir – og núna þegar búið er að kortleggja yfirborð jarðar þá vilja menn auðvitað hugsa stærra og lengra. Nema nýjar lendur.“