Annarlegar hvatir eru ekki nóg til þess að einstaklingur teljist ósakhæfur, að sögn Önnu Kristínar Newton sálfræðings. Hún hefur unnið talsvert með dæmdum kynferðisafbrotamönnum, sem brotið hafa gegn börnum.
Ranghugmyndir geta þó birst með ýmsum hætti og framheilaskaði getur til að mynda orðið til þess að kalla fram afbrotahegðun hjá einstaklingi, væri þá sakhæfi metið út frá orsökum hvatanna en ekki þess eins að viðkomandi sé haldinn barnagirnd.
Nýlega staðfesti Landsréttur gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms yfir sjötugum manni sem grunaður er 22 kynferðisbrot gegn börnum á aldrinum ellefu til sextán ára, brotin felast í því að hafa sent börnunum skilaboð af kynferðislegum toga.
Maðurinn og verjandi hans fóru fram á að hann yrði vistaður á geðdeild, í stað gæsluvarðhalds en ekki var fallist á það.
Einstaklingar sem laðast að börnum og brjóta gegn þeim kynferðislega til þess að koma til móts við kenndir sínar, þurfa að vera tilbúnir að leggja á sig mikla vinnu til þess að draga úr og takast á við þessar langanir. Anna Kristín segir það takast hjá mörgum, en ekki öllum.
„Rannsóknir hafa leitt í ljós að um eitt prósent karlmanna hefur haft þessar hvatir,“ segir Anna Kristín en bætir við að það sé þó ekki hægt að leggja það að jöfnu að hafa þessar hvatir, og að gera eitthvað við þær.
Stærsti hluti þeirra sem finna fyrir kynferðislegum löngunum gagnvart börnum, koma aldrei fram í dagsljósið, að sögn Önnu Kristínar.
Á undanförnum árum hefur orðið stökkbreyting á fjölda mála þar sem um er að ræða kynferðisbrot gegn börnum, einkum á netinu. Þetta sýna tölur frá nágrannalöndum okkar, en Anna Kristín segir að við séum oft seinni til að koma auga á svona mynstur hér á landi.
Ein mikilvæg breyta er hið auðvelda aðgengi að einstaklingum sem netið býður upp á og jafnframt fjarlægðin. Það er hugsanlegt að fleiri láti undan kenndum sínum í gegnum netið og brjóti á börnum þar, þó þeir hefðu ekki viðhaft sambærilega háttsemi í eigin persónu.
Anna Kristín segir til mikils að vinna að fræða, upplýsa og aðstoða þá sem þurfa á hjálp að halda. Hún bendir á að þeir sem upplifa barnagirnd og vilja leita sér aðstoðar geta leitað sér aðstoðar í gegnum vefsíðuna taktuskrefid.is.