Tiltölulega fá kórónuveirusýni voru tekin í gær miðað við þann gríðarlega fjölda smita sem greindist en 200 smit greindust innanlands í gær. Einkennasýnin voru einungis 1.260 talsins en 13,73% þeirra voru jákvæð. Er þetta hæsta hlutfall jákvæðra einkennasýna síðan í júlí á síðasta ári en þá voru 30% einkennasýna jákvæð.
Þetta kemur fram á Covid.is. Almennt eru tölur þar ekki uppfærðar um helgar en þær voru uppfærðar nú vegna stöðunnar á faraldrinum.
799 sýni voru tekin í sóttkvíar- og handahófsskimunum og var hlutfall jákvæðra sýna þar mun lægra eða 3,38%. Enn lægra var hlutfallið í landamæraskimun eða 0,95% en þar voru 1.158 sýni tekin.
14 daga nýgengi á hverja 100.000 íbúa er í hærra lagi eða 536,4.
Ljóst er að margir munu þurfa að eyða jólunum í einangrun. Sem stendur eru á annað þúsund í einangrun.
Fréttin hefur verið uppfærð. Hér stóð fyrst að um væri að ræða hæsta hlutfall jákvæðra einkennasýna frá upphafi en raunin er sú að síðast var hlutfallið hærra í júlímánuði í fyrra.