„Tilvera okkar er um margt óskiljanleg. Við vitum í reynd afskaplega lítið um hana. Kortlagningin er hins vegar tól sem hjálpar okkur að skýra efnisheiminn sem við búum í og setja hann í samhengi. Hvar er ég? Það hjálpar okkur að koma böndum á óreiðuna í heiminum og skilja hann aðeins betur. Eða jafnvel bjagar hana. Afríka er í reynd sirka 14 sinnum stærri en Grænland. Það eru tvær eldfjallaeyjur milli Evrópu og Ameríku, Ísland og Japan.“
Þetta segir Reynir Finndal Grétarsson sem hefur sent frá sér bókina Kortlagning heimsins – frá Grikkjum til Google Maps. Hún er afrakstur brennandi áhuga höfundar á landakortum, einkum frá fyrri öldum þegar listfengið og fegurðin réðu för en ekki upplýsingagildið. Bókin er rökrétt framhald bókarinnar Kortlagning Íslands, sem kom út fyrir fjórum árum.
Enda þótt undirtitill nýju bókarinnar sé Frá Grikkjum til Google Maps þá safnar Reynir nær eingöngu kortum sem gerð voru fyrir 1850.
„Eftir það er barnið orðið fullorðið og kortin ekki eins spennandi enda fóru opinberar stofnanir að sjá um landmælingar og upplýsingagildið að skipta öllu máli. Fegurðin og listræna gildið höfða á hinn bóginn meira til mín. Eftir að Gutenberg kom fram með prentlistina á 15. öld urðu kort mjög vinsæl enda vildi fólk upp frá því hafa sínar bækur með myndum en ekki bara texta. Til að byrja með var mest um englamyndir en fljótlega urðu landakort vinsælt myndefni enda mörg hver ákaflega falleg,“ segir Reynir og bætir við að það hafi ábyggilega verið mikil upplifun fyrir fólk að sjá heimskort í fyrsta sinn.
Landafræðin var auðvitað mun frumstæðari en við þekkjum í dag en það kom ekki að sök, að sögn Reynis.
„Listrænt gildi kortsins skipti miklu meira máli; það varð að vera fallegt, samanber Íslandskortið fræga með skrímslunum allt í kring,“ segir Reynir en tvenns konar aðferðum var aðallega beitt, tréskurði og koparstungum, og listfengið réð ríkjum.
Hann segir erfitt að skilja hvernig menn fóru að því að gera þetta svona vel en bestu kortin frá þessum tíma líta út fyrir að hafa verið gerð fyrir örfáum árum. Liturinn fölnar ekki. „Það var virkilega vel í þetta lagt, sem heillaði mig ekki síður.“
Reynir kveðst alltaf hafa haft gaman af landakortum og rekist hann á slíkan grip á förnum vegi gefi hann sér iðulega tíma til að skoða.
„Mín kynslóð og þeir sem eldri eru vita hvar Ísland er, efst upp, vinstra megin við miðju. Það var þó alls ekkert sjálfgefið enda hefði suður alveg eins getað verið upp en ekki niður og var það á mörgum kortum áður. Börnin okkar nota hins vegar Google Maps, þau eru alltaf punkturinn í miðjunni og fá fyrir vikið ekki sömu tilfinninguna fyrir kortunum. Þú getur ímyndað þér hvaða áhrif það hefur á heimsmyndina.“
Nánar er rætt við Reyni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.