Milt veður var og hlýtt en haustlitir í rjóðrum þegar Morgunblaðið heimsótti háskólabæinn Martin í Slóvakíu um miðjan nóvember.
Bærinn er vel á annað hundrað kílómetra norðaustur af höfuðborginni Bratislava og þar búa um 54 þúsund manns. Bærinn er umkringdur skógivöxnum fjallshlíðum en tugum kílómetra norðar liggja landamærin að Póllandi.
Martin er því ekki í alfaraleið fyrir Íslendinga en samt er það svo að síðustu ár hefur þar orðið til fjölmenn nýlenda íslenskra læknanema.
Það er ekki síst að þakka starfi Runólfs Oddssonar, ræðismanns Slóvakíu á Íslandi, sem hefur kynnt læknanámið á Íslandi og greitt götu þeirra ríflega þrjú hundruð nema sem hafa skráð sig í læknanámið.
Eftir heimsókn á bæjarskrifstofurnar og skoðunarferð um húsakynni Jessenius-læknadeildarinnar við háskólann í Martin lá leiðin í fundarherbergi þar sem sjö íslenskir læknanemar tóku á móti gestum.
Arna Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra læknanema í Slóvakíu (FÍLS), hafði orð fyrir hópnum.
Spurð um formannsstörfin segist Arna halda utan um viðburði, koma á framfæri upplýsingum til nemenda og skipuleggja félagslíf svo eitthvað sé nefnt. Félagsmenn séu nú 123 talsins og hér um bil sex af hverjum tíu konur. En alls 179 Íslendingar eru nú í læknadeildinni.
„Við erum með ýmsa viðburði. Þar ber hæst árstíðina sem átti að vera þessa helgi [13. og 14. nóvember] en vegna aðstæðna þurftum við því miður að fresta henni. Við erum svo með skíðaferð í mars sem er líka einn af stærri viðburðum okkar. Þá erum við árlega með kynningarviku fyrir nýnema, eða svonefnda „buddy week“, sem kemur reyndar frá norska nemendafélaginu, í byrjun september. Þetta árið fengum við að taka meiri þátt í viðburðinum en við erum líka að reyna að styrkja þetta samstarf. Svo erum við með smærri viðburði eins og spurningaleiki og hrekkjavöku,“ segir Arna.
– En hversu mikið samneyti skyldu Íslendingarnir hafa?
Eva Mey Guðmundsdóttir verður þá til svara: „Þetta er eins og önnur fjölskylda okkar. Við hlökkum alltaf til að koma hingað og hittast. Við reiðum okkur mikið hvert á annað.“
Alexandra Hafþórsdóttir, nemi á þriðja ári, er næst til svara en systir hennar, Tinna, er á fjórða árinu:
„Við hjálpumst að við allt mögulegt. Við eldum saman, við förum út að borða saman og við ferðumst saman til annarra borga.“
Silja Kristín Guðmundsdóttir: „Svo erum við fá, aðeins tíu saman í bekk, og þá verður til ákveðinn kjarni. Þú fylgir þessum bekk yfirleitt í gegnum þessi sex ár og hann gerir oft eitthvað saman.“
– Hvernig er kaupmátturinn?
Silja: „Mjög fínn. Við getum ferðast mikið og það er klárlega mun ódýrara að lifa hérna en á Íslandi.“
Alexandra: „Svo lækkar leigan ef tveir deila með sér íbúð.“
– Hvers vegna eruð þið hér?
Arna: „Ég sá tækifæri til að læra erlendis og maður hugsaði með sér að það hlyti að vera frábært að geta nýtt skólaárin til að vera í flottum skóla, en geta jafnframt ferðast til annarra landa og víkkað sjóndeildarhringinn. Það er einnig kostur að geta kynnst nemendum frá öðrum löndum. Ég sá þetta sem ævintýri í leiðinni.“
Edda Þórunn Þórarinsdóttir: „Margir hafa ætlað sér að skipta yfir til Danmerkur [fyrir síðustu þrjú ár námsins] en hafa hætt við af því að þeim finnst svo gaman hérna. Og við erum orðin svo náin.“
– Hvernig gengur slóvakískan?
Silja: „Við lærum hana fyrstu tvö árin. Hún lærist jafnt og þétt.“
Eva Mey: „Slóvakarnir eru frábærir. Þeir eru opnir og maður lærir meira með því að vera með þeim.“
Alexandra: „Á spítalanum hittum við slóvakíska sjúklinga sem tala ekki ensku. Þá æfist maður.“
– Hvernig eru kennsluhættir í samanburði við Ísland?
Auður Kristín Pétursdóttir: „Ég held að kennsluaðferðirnar séu svolítið ólíkar því sem gerist á Íslandi.
Maður þarf að koma vel undirbúinn í flesta tíma af því að maður er iðulega spurður [út í námsefnið].“
– Er meiri agi hér en á Íslandi?
Auður: „Það er að minnsta kosti mikill agi, en ég þekki námið á Íslandi ekki nógu vel til að geta sagt til um hvort hann sé meiri hér eða heima. Hér eru kennsluaðferðirnar meira eftir gamla skólanum.“
– Það gengur sem sagt ekki að mæta óundirbúinn í tíma?
Auður: „Alls ekki. Það er passað upp á að þú sért vel undirbúinn með því að spyrja þig út í efnið fyrir framan allan bekkinn. Svo eru það lokaprófin, sem eru oftast munnleg, en á Íslandi eru þau jafnan skrifleg.“
– Hér er byrjað að prófa munnlega úr námsefninu eftir fyrstu önnina. Voru það viðbrigði fyrir ykkur?
Auður: „Já, ég held að allir hafi verið svolítið stressaðir.“
– Hvað tekur svona spurningalota langan tíma?
Arna: „Það fer eftir faginu. Þú dregur þrjár spurningar, og hefur kannski fimmtán til tuttugu mínútur til að undirbúa þig, svo kemurðu fram fyrir kennarann, byrjar á fyrstu spurningunni og útskýrir svarið. Kennarinn hlustar og þeir geta spurt nánar um efnið ef einhverjar upplýsingar vantar.“
Auður: „Við förum í munnleg próf en heima eru þetta mikið lotur. Við förum reglulega í kaflapróf og svo í munnlegt lokapróf í lok áfangans þar sem námsefnið getur verið frá allt að þremur önnum. Þannig að maður man mikið úr efninu frá fyrri árum og það er mikill kostur.“
– Styrkir þetta sjálfstraustið?
Eva Mey: „Klárlega. Maður þroskast mikið við að koma hingað og taka þetta nám í útlöndum. Þetta er ekki aðeins skóli, læknaskóli, heldur líka skóli lífsins, að vera hér sjálfstæður, eignast nýja vini og læra nýtt tungumál í nýju umhverfi.“
– Þú ert nýkominn, Bjarni Fannar [Kjartansson]. Hvar var inntökuprófið?
„Það fór fram á netinu. Ég tók það heima.“
– Hvernig undirbjóstu þig?
„Ég var að undirbúa mig fyrir íslenska prófið [hjá læknadeild Háskóla Íslands]. Það hélst í hendur.“
– Þú hefur tekið bæði prófin?
„Já.“
Hver er munurinn á þeim?
„Það er prófað í líffræði og efnafræði í slóvakíska prófinu og farið dýpra í efnið en í íslenska prófinu eru mörg fög undir.“
– En þú, Edda Þórunn? Hvað sérðu fyrir þér að gera eftir útskrift?
„Ég vildi snemma verða læknir og hugsaði sem svo að ef ég gæti ekki orðið læknir þá vildi ég verða ljósmóðir. Þetta helst svolítið í hendur en mig langaði alltaf mest að verða fæðingar- og kvensjúkdómalæknir.“
– Hvar sjáið þið fyrir ykkur að starfa í framtíðinni?
Alexandra: „Ég sé ekki fyrir mér að starfa á Íslandi. Ég er búin að skoða nokkur lönd. Mamma bestu vinkonu minnar er í Sviss. Og hún sagði frábært að vera þar. Þannig að ég er að skoða þann möguleika. Svo er það England en mig langar að komast aðeins frá Skandinavíu og upplifa meira í gegnum starfið.“
Eva Mey: „Ég er opin fyrir öllu, en fjölskylda mín er búsett í Noregi og bróðir minn Victor er að vinna sem læknir á Íslandi svo það er aldrei að vita nema við systkinin sameinum krafta okkar þar!“
Auður: „Ég hugsa að ég muni enda á Íslandi. Það er allavega draumurinn. En ég hugsa að ég sérhæfi mig í Noregi eða Svíþjóð.“
Alexandra: „Mig langar til að nota tækifærið og gagnrýna stefnu LÍN. Við megum nefnilega ekki vinna eins mikið og við viljum á sumrin. Við vinnum oft næturvaktir og um leið og launin ná vissu hámarki, 1,2-1,3 milljónum, þá skerðist lánið, sem ég tel afar ósanngjarnt. Við höldum enda til dæmis áfram að greiða húsaleigu yfir sumarið. Margir afþakka því vaktir vegna þess að það skerðir lánið en samtímis vantar alltaf starfsfólk á spítölunum.“
Hófu að taka á móti erlendum nemum 1991
Ján Danko, borgarstjóri Martin, tók á móti blaðamanni og öðrum gestum frá Íslandi á skrifstofu sinni.
Danko er menntaður læknir en hann var áður deildarforseti Jessenius-læknaskólans í Martin.
Danko svaraði spurningum á slóvakísku og túlkaði Erika Halašová, ræðismaður Íslands í Slóvakíu, með aðsetur í Martin, svörin yfir á ensku. Eftir stutta kynningu berst talið að læknadeild Martin-háskóla sem Danko segir hafa verið stofnaða árið 1963 sem útibú frá Comenius-háskóla í Bratislava, sem var stofnaður árið 1919, og 1969 varð læknadeildin í Martin sjálfstæð.
Læknadeildin í Martin hóf að taka við erlendum nemendum árið 1991 og voru þeir fáir í fyrstu.
Um aldamótin var námið fyrir erlenda læknanema endurskipulagt og var kynning á náminu í Evrópu efld. Voru Norðmenn fyrstu nemendurnir í þeim hópi.
Danko segir erlendum nemendum hafa fjölgað eftir því sem gæði námsins spurðust út en ætíð hafi verið lögð áhersla á að kenna í fámennum hópum og ná vel til hvers einasta læknanema. Um 600 erlendir nemar eru í læknanáminu sem tekur sex ár.
Námið er á ensku og fyrstu tvö árin læra íslensku nemendurnir slóvakísku til að geta hafið verklega þáttinn á sjúkrahúsi á þriðja ári. Um 90% af þeim sem ná inntökuprófinu ljúka náminu. Deildin útskrifar nú að jafnaði 40-50 erlenda nemendur á ári og um hundrað heimamenn. Boðið er sérnám en nemendurnir þurfa að starfa í vissan tíma í Slóvakíu.
Vorið 2012 var ákveðið að bjóða íslenskum nemendum í læknanámið. Tólf þreyttu inntökuprófið í ágúst 2012 og náðu níu prófinu og hófu nám þá um haustið.
Danko segir að á þessum tíma hafi læknadeildin í Martin verið álitin sú besta í Slóvakíu og hafi hún haldið því orðspori síðan. Deildin njóti virðingar um alla Evrópu og víðar um heim, þ.m.t. í Bandaríkjunum, en árið 2004 hafi námið verið samræmt læknanámi í álfunni með tilskipun frá Evrópusambandinu.
Danko segir íslensku nemana hafa staðið sig vel en íslenska menntakerfið sé greinilega gott.
Læknanámið kostar erlenda nemendur um 10.900 evrur á ári og helst árgjaldið óbreytt, þótt það sé hækkað á námstímanum. Um fjórðungur þeirra sem þreyta inntökuprófið kemst í deildina, þar af tíundi hver heimamaður, en að jafnaði þreyta það 450 á ári.
Spurður hvort til standi að fjölga íslenskum læknanemum enn frekar segir Danko skólann ekki geta bætt við nemum að sinni en að það verði skoðað síðar.
Fram undan sé uppbygging nýs og fullkomins sjúkrahúss í Martin en það geti skapað tækifæri. Hópurinn kveður þá og þakkar góð kynni. Við göngum næst til fundar við Andreu Calkovská, lækni og prófessor og deildarforseta Jessenius-læknaskólans frá árinu 2019. Hún útskrifaðist sem læknir frá Martin árið 1990 og starfaði meðal annars á Karolinska-sjúkrahúsinu í Svíþjóð. Henni til fulltingis er Janík Martin, varadeildarforseti erlendra nema og dósent, réttarmeinafræðingur og læknir.
Spurð um sérstöðu læknadeildarinnar bentu þau meðal annars á þá áherslu skólans að kenna í fámennum hópum. Þá muni nýtt sjúkrahús styrkja Martin í sessi sem miðstöð læknarannsókna í Slóvakíu.
Við hittum loks dr. Katarinu Murceková, yfirmann skrifstofu fyrir erlenda stúdenta, en hún kennir nemendum jafnframt slóvakísku. Hún hrósar íslensku læknanemunum sem séu iðnir og vel búnir undir námið. Margt sé líkt með hugarfari íslenskra og slóvakískra læknanema. Það auðveldi Íslendingunum að læra slóvakísku að eignast vini meðal heimamanna.