Ítrekuð inngrip vegna sóttvarnalagabrota

Frá miðbænum.
Frá miðbænum. mbl.is/Ari

Nokkuð var um að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefði afskipti af veitingastöðum og samkomum vegna ætlaðra brota á sóttvarnalögum í gærkvöldi. Í dagbók lögreglu kemur þó ekki nákvæmlega fram hvers eðlis ætluð brot voru.

Rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi hafði lögregla afskipti af starfsemi veitingastaðar í miðbænum. Grunur vaknaði um brot á reglum um lokun samkomustaða og starfsemi vegna sérstakrar smithættu. 

Klukkan hálf tíu hafði lögreglan svo afskipti af framkvæmd tónleika í sal í Vesturbæ. Þar er talið að sóttvarnalög hafi verið brotin.

Sama brot var viðhaft á veitingastað í miðbænum sem lögregla hafði afskipti af klukkan tíu í gærkvöldi. Þar var fyrirmælum lögreglu jafnframt ekki hlýtt.  

Að því er fram kemur í dagbók lögreglu var nokkuð um ölvunarakstur í nótt.

Hið sama má segja um hnupl og innbrot en lögregla var kölluð til vegna konu sem grunuð var um þjófnað í apóteki og það að reyna að ná sér í sótthreinsi til drykkju. Þá handtók lögregla mann rétt fyrir miðnætti í miðbænum grunaðan um tilraun til innbrot.

Klukkan hálf sex í gærkvöldi bárust lögreglu svo tvær tilkynningar um menn sem voru að stela vörum úr verslunum í Grafarvogi og Árbær. Annar þeirra var búinn að setja vörur að vermæti rúmum 33.000 krónum í bakpokann sinn. Hinn reyndi að komast út úr versluninni með fulla matarkörfu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert