Enn bætist í hóp Viðreisnarfólks sem smitað er af kórónuveirunni. María Rut Kristinsdóttir varaþingmaður greindi frá því fyrir skemmstu að hún væri smituð, rétt eins og allir þingmenn Viðreisnar.
Í samtali við mbl.is í gær sagði Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar að það stefndi í að þingflokkur Viðreisnar myndi samanstanda af varamönnum í næstu viku.
Eiginkona Maríu, Ingileif Friðriksdóttir, smitaðist einnig.
„Strákarnir okkar eru til allrar hamingju neikvæðir. Svo nú taka við undarlegir dagar af því að reyna að smita þá ekki, þar sem þeir eru samt í sóttkví á heimilinu,“ skrifar María Rut í færslu á Facebook.
„Þau sem þekkja mig vita að ég hef verið með töluverðan sóttkvíða og farið mjög gætilega. Passað mig og ekki sótt nein mannamót af viti. Kannski smá lýsandi að þau sem ég sendi í sóttkví er fjölskyldan mín sem ég bý með. En svona er þetta. Þetta getur bitið okkur öll. Og þetta var sannarlega ekki jólaplanið okkar. Vorum farin að hlakka svo mikið til langþráðra fjölskyldustunda,“ skrifar María Rut.
„En svona er lífið og við tökum einn dag í einu og vonum bara innilega að veikindin verði ekki alvarleg og við komumst hjá því að smita strákana. Við eigum gott fólk sem kemur færandi hendi.“