Minnisblað Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis um sóttvarnaaðgerðir er væntanlegt snemma að morgni mánudags og fer fyrir ráðherranefnd í kjölfarið. Þetta staðfestir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Reglugerðin sem kveður á um núgildandi sóttvarnaaðgerðir rennur út á miðvikudag, 22. desember.
Í samtali við mbl.is að morgni sunnudags vildi Þórólfur ekki gefa upp hvort hann ætlaði að mæla fyrir hertari samkomutakmörkunum. Hann sagði þó minnisblaðið langt komið. Á föstudaginn taldi hann ekki forsendur til afléttinga fyrir jól.
Á síðastliðnum sólarhring greindust 200 smit innanlands, sem er næstmesti fjöldi sem greinst hefur á einum degi. Samkvæmt nýjustu tölum á vef Landspítala eru tólf sjúkllingar á spítalanum vegna Covid-19, þar af einn á gjörgæslu í öndunarvél.
Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar á Landspítala, segir faraldurinn stefna í veldisvöxt og telur hann líklegt að bráðlega megi búast við 600 smitum á dag.
Telur Már mikilvægt að gripið sé í taumana enda muni heilbrigðiskerfið ekki ráða við álagið sem fylgir slíkum smitfjölda. Ef spáin raungerist gæti fjöldi spítalainnlagna farið upp í 120.