Allt frá því um miðja 19. öld hafa Íslendingar deilt um réttmæti þess að nota ættarnöfn í stað hins forna siðar að kenna sig við föður eða móður. Þetta er umfjöllunarefni í nýrri bók sem Páll Björnsson, sagnfræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri, hfeur sent frá sér, Ættarnöfn á Íslandi. Undirtitill bókarinnar er Átök um þjóðararf og ímyndir.
Hér á landi voru ættarnöfn fyrr á tíð tengd valdsmönnum og efnamönnum og þeim sem höfðu dvalið við nám og störf í útlöndum, einkum Danmörku. Segja má að með ættarnöfnum hafi menn skapað sér sérstöðu og innsiglað á vissan hátt að þeir væri ekki hluti almúgans heldur yfir hann hafnir. Einna þekktust frá fyrri tíð eru ættarnöfn eins og Stephensen, Schveing, Finsen, Espólín, Briem, Thoroddsen, Thorarensen, Thorlacius, Hafstein, Claessen og Thors, svo nokkur séu nefnd.
Snemma á öldinni sem leið tóku ýmsir málsmetandi menn upp þá kröfu að öllum yrði heimilt að nota ættarnöfn og náðist sá árangur að ættarnöfn voru lögleidd með samþykkt Alþingis árið 1913. Í kjölfarið fjölgaði þeim mjög.
En meðal landsmanna var engin sátt um þessa róttæku breytingu á nafnakerfinu. Horfið var til fyrri hátta með afnámi ættarnafnalaganna árið 1925. Ættarnöfnin sem tekin höfðu verið upp fengu þó að standa óhögguð en ný voru ekki leyfð. En það hefur ekki verið friður um ættarnöfnin eftir þetta og stöðugt eru uppi umræður á Alþingi og í þjóðfélaginu um nafnsiði landsmanna. Inn í þær blandast m.a. hvernig fara eigi með nöfn útlendinga sem verða íslenskir ríkisborgarar. Eiga þeir að fá að halda nöfnum sínum eða taka upp íslensk nöfn eins og til skamms tíma var krafist.
En hvers vegna hafa deilurnar um ættarnöfnin, sem enn standa, orðið svona heitar og ákafar? Og hvað segja þær um okkur Íslendinga og samfélagið?
„Þetta kallar á margháttaðar skýringar,“ segir höfundur bókarinnar, Páll Björnsson. „Ættarnöfn breiddust út í nágrannalöndunum samhliða stækkun borga og bæja. Í takt við þá þróun voru ættarnöfn t.d. bundin í lög í Danmörku 1828 en það var þó ekki fyrr en um 1900 að Danir í hinum dreifðari byggðum létu alfarið af því að kenna sig við feður sína. Þar urðu þessi miklu umskipti án teljandi andstöðu.“
Páll segir að á Íslandi, þar sem ættarnöfn voru tiltölulega fá á 19. öld, hafi framvindan orðið með allt öðrum hætti. Hér hafi menn farið að líta á föðurnafnasiðinn sem mikilvægan þátt í varðveislu íslenskrar menningar á síðari hluta aldarinnar. Litið var á hann sem hluta af íslenskum þjóðararfi. Menn sögðu að með varðveislu þessa siðar myndu Íslendingar ávinna sér virðingu annarra þjóða.
„Nærtæk skýring á þessari atburðarás er sú, að ólíkt Danmörku, þá náði þjóðernisvitund fótfestu hér á landi áður en þéttbýli fór að myndast fyrir alvöru. Hin nýja vitund birtist t.a.m. í því að fjölmörg ný þjóðartákn urðu til. Í löngum aðdraganda að fullveldi landsins 1918 var Jón forseti t.d. gerður að miðlægu sameiningartákni. Sjálfstæðisbaráttan almennt skiptir þannig miklu máli en hún fól það m.a. í sér að Íslendingar fóru að leggja áherslu á sérkenni sín og það sem aðgreindi þá frá öðrum,“ segir Páll.
Hann segir að aldrei hafi þó myndast einhugur um föðurnafnasiðinn. Talsmenn ættarnafna töldu að Íslendingar myndu einungis verða að þjóð meðal þjóða með því að innleiða ættarnöfn, annars yrðu þeir jafnvel álitnir villimenn. Formælendur ættarnafna beittu fjölmörgum öðrum rökum á 20. öld, t.d. þeim að nöfn fólks væru einkamál hvers og eins.
„Þessar deildu meiningar endurspegla ekki aðeins ólík sjónarmið heldur minna okkur einnig á að nöfn eru veigamikill hluti af sjálfsmynd fólks,“ segir Páll.