Tvö tilboð bárust í rekstur áætlunarflugs á norð-austurhorni landsins, en tilboð voru nýlega opnuð hjá Vegagerðinni. Norlandair á Akureyri átti lægra tilboðið en það flugfélag hefur annast flug á þessum leiðum undanfarin ár, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Um er að ræða sérleyfi fyrir Vegagerðina á eftirtöldum flugleiðum: Akureyri - Grímsey - Akureyri og Akureyri - Vopnafjörður - Þórshöfn - Akureyri.
Norlandair á Akureyri bauð krónur 470.614.427, sem var 5% yfir áætluðum verktakakostnaði, sem var tæpar 448 milljónir. Mýflug hf. í Mýatnssveit bauð krónur 641.077.920.
Tilboðin eru án virðisaukaskatts og miðast við samningstímann, sem er þrjú ár. Miðað er við endurgreiðslu kostnaðar sem af rekstri í áætlunarflugi leiðir, að frádregnum tekjum, þ.e. að annast áætlunarflug með farþega og vörur til og frá Grímsey, Vopnafirði og Þórshöfn, eins og segir í útboðslýsingu.