Ómíkron taki yfir á næstu dögum eða vikum

„Ég held að það sé hluti af þessu, að fólk …
„Ég held að það sé hluti af þessu, að fólk er orðið þreytt. En það er þá okkar að hvetja fólk áfram, reyna að benda fólki á orsakasamhengið í þessu,“ segir Þórólfur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sóttvarnalæknir segir að búast megi við því að Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar verði ráðandi í smitum hérlendis á næstu dögum eða vikum. Hann segir að þó veikindi af völdum Ómíkron virðist vera vægari en af völdum Delta þá geti mikill smitfjöldi stuðlað að mörgum sjúkrahúsinnlögnum. Tveir skammtar af bóluefni virðast ekki ráða við Ómíkron en sá þriðji býður upp á vernd.

200 smit greindust innanlands í gær og eru Ómíkron smit á landinu nú orðin 147 talsins, samkvæmt upplýsingum frá Íslenskri erfðagreiningu.

„Það er greinilegt að við erum að fara í sömu þróun og sést í nágrannaríkjum okkar. Hluti af þessum smitum eru Ómíkron, það er í vexti hér innanlands greinilega. Delta er það náttúrulega líka. Við megum jafnvel búast við því að Ómíkron-afbrigðið muni taka yfir hreinlega á næstu dögum og vikum,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is.

„Verður bara að koma í ljós“

Núgildandi reglugerð um aðgerðir vegna faraldursins gildir til miðvikudags. Þórólfur er með minnisblað um tillögur um áframhaldandi aðgerðir í smíðum og er það á lokametrunum.

Má gera ráð fyrir því að það verði eitthvað hert?

„Það verður bara að koma í ljós. Við tökum alltaf mið af þeirri þróun sem er í gangi. Mínar tillögur miðast við það. Svo er náttúrulega mín ráðgjöf til ráðherra á þessum faglegu nótum. Við erum í stöðugu samtali og svo sjáum við hvað stjórnvöld vilja endanlega gera.“

Sem stend­ur er 50 manna sam­komu­bann í gildi. Þá mega 500 manns koma sam­an ef fólk hef­ur farið í hraðpróf fyr­ir­fram, og að fleiri skil­yrðum upp­fyllt­um. 

Þarf minna til fyrir Ómíkron-smit

Er enn skynsamlegt að halda stóra viðburði þar sem fólk fer í hraðpróf fyrst?

„Það er ákveðin áhætta falin í mikilli blöndun, bæði á stórum viðburðum og þeim sem eru ekki eins stórir. Sérstaklega ef við erum að tala um Ómíkron-afbrigðið. Það þarf minna til til þess að smit verði og í því liggur aukin smithæfni þeirrar veiru,“ segir Þórólfur.

Hann segir það sennilega rétt að Ómíkron-afbrigði veirunnar valdi minni veikindum en fyrri afbrigði hennar.

„Það eru hlutfallslega færri sem veikjast alvarlega en það er eftir sem áður fólk sem veikist alvarlega. Í Danmörku til dæmis, af þeim 11.000 [Ómíkron] smitum sem þeir hafa greint þar eru 0,7% sem hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús. Á milli 1 og 2% hafa þurft að leggjast inn vegna Delta-afbrigðisins. Ef útbreiðslan verður mjög mikil gæti fjöldinn sem þarf að leggjast inn orðið mikill. Það er það sem menn hafa áhyggjur af.“

Heldurðu að fólk sé tilbúið í að fylgja aðgerðum, eru ekki allir orðnir þreyttir á þessu?

„Ég held að það sé hluti af þessu, að fólk er orðið þreytt. En það er þá okkar að hvetja fólk áfram, reyna að benda fólki á orsakasamhengið í þessu,“ segir Þórólfur. 

„Enn eru sumir að reyna að tala þetta niður, segja að þetta sé ekki neitt neitt, tala um [Covid-19] eins og þetta sé bara eitthvað venjulegt kvef sem það er í flestum tilvikum en ekki öllum. Við erum búin að sýna fram á að bara lítið hlutfall sem þarf að leggjast inn á spítala getur reynst spítalakerfinu algjörlega ofviða. Það er það sem við erum að reyna að benda á og biðla til landsmanna að skilja það. Við verðum að ná tökum á þessari bylgju ef við ætlum ekki að lenda í vandræðum hér innan lands. Það held ég að sé nokkuð ljóst,“ segir Þórólfur.

Örvunarskammturinn skipti sköpum

Nú býðst flestum landsmönnum sem hafa fengið tvær sprautur af bóluefni örvunarskammtur, þ.e. þriðji skammturinn.

„Það er algjörlega ljóst að örvunarskammturinn skiptir sköpum í sambandi við Delta. þeir sem fá örvunarskammtinn eru margfallt ólíklegri til að smitast og veikjast alvarlega heldur en þeir sem hafa fengið tvo skammta,“ segir Þórólfur og heldur áfram:

„Myndin er svolítið öðru vísi hvað varðar Ómíkron-afbrigðið, virðist vera, það er ekki komin endanleg mynd á það, en það virðist vera að tveir skammtar geri sáralítið til þess að koma í veg fyrir smit af völdum Ómíkron-afbrigðisins. Örvunarskammturinn gerir hins vegar miklu meira en verndin er sennilega ekki eins mikil og gegn Delta-afbrigðinu. Við erum aðeins í öðrum leik núna og það þýðir ekki bara að festa sig við það sem við sjáum við Delta-afbrigðið. Eftir sem áður er vernd af þremur skömmtum svo við hvetjum alla áfram til þess að fara í bólusetningu og þiggja örvunarskammtinn. Það er sú vernd sem við höfum upp á að bjóða núna.“

Ávinningurinn meiri en áhættan

Í gær söfnuðust nokkur hundruð manna saman og mótmæltu bólusetningum barna en bólusetningar 5 til 11 ára barna gegn Covid-19 hefjast eftir áramót.

Það eru greinilega einhverjir efins um öryggi þeirra, hvað hefur þú að segja við því?

„Ég segi það sama og búið er að segja, þó það sé greinilegt að það hafi ekki náð í gegn. Ef við horfum á þær rannsóknir og niðurstöður sem við höfum af bólusetningum barna, bæði á þessum aldri og á börnum á aldrinum 12 til 16 ára þá er ávinningurinn af bólusetningunum margfaldur á við áhættuna,“ segir Þórólfur.  

Hann ítrekar að börn geti farið illa út úr smiti.

„Það er hluti barna sem veikist alvarlega og það eru jafnvel mörg dauðsföll af völdum Covid-19.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert