Covid-19 hefur víða raskað skólastarfi undanfarnar vikur og mánuði en nú örfáum dögum fyrir jól hafa skólastjórnendur í Vesturbæjarskóla tekið ákvörðun um að aflýsa jólaskemmtun sem átti að fara fram á morgun vegna kórónuveirusmita. Þetta staðfestir Margrét Einarsdóttir skólastjóri.
Að sögn Margrétar hafa þó nokkur smit verið að greinast síðustu viku meðal nemenda og þótti því ráðlegt að aflýsa síðasta skóladeginum, sem er á morgun. Átti þá jólaskemmtun að fara fram. Þetta var gert í samráði við skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar.
Hún gat ekki staðfest hversu mörg smit væri um að ræða en að sögn Margrétar eru smitin fyrst og fremst að berast milli barnanna í yngri bekkjunum en þau sem eldri eru hafa mörg hver verið bólusett.
Þá hefur foreldrum barna í Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi einnig verið boðinn sá kostur að halda börnum sínum heima á morgun þegar jólaskemmtun fer fram á síðasta degi skólans vegna smita. Ólína Elín Thoroddsen skólastjóri staðfesti þetta.
Í tölvupósti sem sendur var foreldrum kemur fram að nokkur smit hefðu greinst hjá nemendum í öllum þriðju bekkjum og einum kennara í sama árgangi. Væri því fjöldi nemenda kominn í sóttkví.
Smitin einangrast þó ekki við þriðju bekkina.
„Ég hvet ykkur foreldra til þess að taka heimapróf á ykkar börnum og
helst að senda þau ekki í skólann á morgun ef þið hafið möguleika á að hafa þau heima,“ segir í tölvupóstinum.