Telur skynsamlegast að slá af stórar samkomur

Kári hvetur fólk hiklaust til þess að fara í þriðja …
Kári hvetur fólk hiklaust til þess að fara í þriðja skammtinn. „Nema þeim sé farið að þykja vænt um veiruna.“ mbl.is/Kristinn Magnússon

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, telur ljóst að herða þurfi aðgerðir innanlands og leggja mikla áherslu á bólusetningar. Hann hvetur alla til þess að sækja sér þriðja skammtinn af bóluefni gegn Covid-19 þar sem 11 sinnum minni líkur séu á smiti með þremur sprautum en engum. 

200 kórónuveirusmit greindust innanlands í gær. Aðeins einu sinni hafa fleiri smit greinst innanlands. 147 hafa greinst með Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar hérlendis en Íslensk erfðagreining sér um að raðgreina jákvæð kórónuveirusýni.

„Þetta er á dúndrandi uppleið. Ef ríkisstjórnin er vakandi í þessu skammdegi ætti hún að banna allar stórar samkomur núna. Þetta er af slíkum krafti að það er ekki réttlætanlegt að halda stóra tónleika, leiksýningar, kvikmyndasýningar,“ segir Kári í samtali við mbl.is.

„Þetta verður ótrúlega mikill faraldur í janúar og við getum aðeins lækkað þessa kúrvu með því að haga okkur svolítið skynsamlega.“

Aðgerðirnar sem eru í gildi ráða ekki við þróunina

Sem stendur er 50 manna samkomubann í gildi. Þá mega 500 manns koma saman ef fólk hefur farið í hraðpróf fyrirfram, og að fleiri skilyrðum uppfylltum. Núverandi reglugerð gildir til miðvikudags en Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hyggst skila minnisblaði til heilbrigðisráðherra nú um helgina.

Ætti þá líka, að þínu mati, að banna þá viðburði sem heimilaðir hafa verið með hraðprófum?

„Ég held að við verðum að gera eitthvað slíkt núna. Ef þú vilt leyfa þér þann munað að læra af reynslu annarra, það virðist vera sem svo að við séum tveimur vikum á eftir Dönum og Norðmönnum, væri skynsamlegast í málinu að slá af stórar samkomur yfir hátíðirnar.“

Ómíkron smitum er farið að fjölga mjög hratt innanlands og segir Kári ekki möguleika á að koma í veg fyrir það að þau verði ráðandi í smitum hérlendis bráðlega. Hann segir þó hægt að hafa áhrif á útbreiðsluna með því að „haga sér skynsamlega“ og grípa til aðgerða.

„Þær aðgerðir sem eru í gangi núna eru það litlar að þær ráða ekki við þetta. Þess vegna held ég að þó svo að við færum í stífustu aðgerðir sem voru í gildi í fyrra myndi það ekki hafa mikil áhrif. Þú gætir lækkað þessa kúrvu svolítið, sérstaklega hægt svolítið á útbreiðslu á Ómíkron núna til að byrja með en þessi skepna er ansi flink að smjúga manna á milli,“ segir Kári.  

Hvetur fólk í þriðja skammt

Er þá ekki hægt að grípa til aðgerða sem kveða þetta alveg í kútinn?

„Ég held að þær aðgerðir sem þyrfti að grípa til til þess að koma í veg fyrir mjög hraða útbreiðslu séu þannig að það væri ekki lifandi við þær til langs tíma,“ segir Kári og jafnframt:

„Ég held að það sem við þurfum fyrst og fremst að gera núna er að hraða bólusetningu og ég er voðalega hræddur um að við verðum í öllum okkar aðgerðum að fara að taka tillit til þess hvort menn séu bólusettir eða ekki. nú fara hinir óbólusettu að verða ansi stór hundraðshluti þeirra sem ber smit manna á milli.“

En nú hafa þríbólusettir smitast?

„Þeir sem eru þríbólusettir eru um það bil 11 sinnum ólíklegri til að smitast, 19 sinnum ólíklegri til þess að vera illa lasnir. Bólusetningin er ekki 100% vörn og enginn hefur gefið það út að hún sé 100%,“ segir Kári sem hvetur fólk hiklaust til þess að fara í þriðja skammtinn. „Nema þeim sé farið að þykja vænt um veiruna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert