Þörf er á úrbótum í nokkrum fjölda undirganga í Reykjavík. Bæta þarf lýsingu í allmörgum þeirra til að auka öryggiskennd vegfarenda og vegna sjónskertra og þeirra sem eiga erfitt með að rata, að því er fram kemur í Morgunblaðinu.
Þetta kemur fram í skýrslu mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkur um úttekt á undirgöngum borgarinnar. Hún var nýlega lögð fram í skipulags- og samgönguráði.
Í Reykjavík eru samtals 48 undirgöng og gerðu starfsmenn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu úttekt á þeim. Könnuð var lýsing, aðgengi, sýnileiki og hvort annar möguleiki var á þverun götu, t.d. hvort gangbraut var til staðar.
Úttektin sýndi að lýsing var í 33 undirgöngum, aðgengi var í 30 þeirra og við fern undirgöng var völ á annars konar götuþverun.
Skortur á aðgengi í undirgöngum getur t.d. verið vegna mikils bratta í göngunum eða stígum sem að þeim liggja og eins ef þar eru tröppur sem fatlað fólk getur ekki notað. Bent er á að mikilvægt sé að merkja undirgöng svo þau séu vel sýnileg vegfarendum.
Nánar má lesa um málið í laugardagsblaði Morgunblaðsins.