Alls greindust 220 kórónuveirusmit innanlands í gær og 18 á landamærunum. Þetta staðfestir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn við mbl.is.
Aldrei hafa fleiri smit greinst innanlands en áður höfðu flest greinst 15. nóvember síðastliðinn, 206 talsins.
Víðir segir þessi tíðindi vera áhyggjuefni. „Það verður að hafa það í huga að það hefur verið mikil umræða um Ómíkron [afbrigðið] en það er ekki nema lítill hluti af smitunum hjá okkur. Það er fyrst og fremst Delta [afbrigðið] sem er stærsti hlutinn af þessu og við þekkjum hvernig það hegðar sér,” segir Víðir.
Hann bætir við að Ómíkrón sé sífellt að verða stærra og að það muni væntanlega taka yfir í janúar, eða jafnvel fyrr.
Covid-tölur dagsins eru seinni á ferðinni en venjulega og eru ekki komnar inn á Covid.is. Að sögn Ingibjargar Lilju Ómarsdóttur hjá almannavörnum komu upp tæknilegir öðrugleikar á síðunni en búið er að greiða úr þeirri flækju núna.
Uppfært kl. 12.12
Fram kemur á Covid.is að 22 hafi greinst á landamærunum. Þar af er beðið eftir mótefnamælingu í níu tilfellum. Af þeim 240 sem greindust í heildina innanlands og á landamærunum voru 98 í sóttkví við greiningu. 1.817 eru í einangrun og 2.806 í sóttkví. Tekin voru 3.845 sýni.