„Ég mynda líta til tölunnar 300 og segja að það sé næsti stallur til að stoppa við. Það yrði virkilega alvarlegt. Þá yrðum við alveg komin út úr korti miðað við það sem hefur sést áður,“ segir Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is um veldisvöxt í smitum Covid-19.
Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild, sagði í viðtali við mbl.is í gær að búast mætti við um 600 smitum á dag ef fjöldi smita hérlendis fylgir eftir veldisvexti smita í Danmörku.
Thor segir 600 smit á dag alveg vera möguleika en ítrekar að ef smit ná nærri 300 á dag þá sé tímabært að gera eitthvað róttækt í sóttvarnaaðgerðum en Þórólfur Guðnason skilaði nýju minnisblaði til heilbrigðisráðherra í dag sem verður tekið fyrir á ríkisstjórnarfundi á morgun.
„Við erum komin í sama vöxt og var fyrir miðjan nóvember þegar takmarkanir voru hertar. Vandinn er að við náðum ekki að fara niður, við erum að byggja ofan á það sem var fyrir. Það eru vextir á hærri höfuðstól.“
Thor segist alveg búast við því að smittölur nái upp í 300 á einum degi fyrir jól, „ef þessi vika heldur svona áfram þá er það algjörlega möguleiki. Ég veit hins vegar ekki með vaxtahraðann hvort við náum 600 líka, þetta er alveg ný staða.“
Hann segir að ef við sjáum 300 smit á dag þá sé Ísland komið vel í áttina að stöðunni í Danmörku.
Thor segir að tölurnar í Danmörku séu ótrúlegar en í gær greindust þar 8.212 með Covid-19 samkvæmt vef danska dagblaðsins BT.
Hann segir líklegt að Ómíkron-afbrigðið taki yfir hér og á öðrum Norðurlöndum líkt og í Danmörku.
Evrópusambandið hefur gefið út spálíkan um þróun faraldursins í löndum álfunar og segir Thor að það líkan sé nú eftirá og að erfitt sé að spá fyrir stöðuna vegna Ómíkron.
„Þeir vara jafnvel við því að vera að líta á spálíkönin núna af því að þetta er einhvern veginn allt upp í loft.“
Thor nefnir að hann fylgist einnig með finnsku spálíkani sem spái nú hröðum vexti smita miðað við núverandi aðstæður.