Háskóli Íslands hefur metið kostnað vegna leigu á húsnæði fyrir þá starfsemi sem varð úti vegna vatnslekans síðastliðið vor, á 50 milljónir króna. Þetta segir Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands.
Enn er beðið eftir matsskýrslu dómkvaddra matsmanna um umfang tjónsins og er enn óljóst hver ber ábyrgðina. En hvers vegna hefur ekki enn verið ráðist í framkvæmdir?
„Okkar lögmenn hafa lagt áherslu á að bíða vegna þess að við viljum ekki skemma sönnunargögn á vettvangi,“ segir Jón. Hann segir málið leggjast þungt á starfslið og nemendur skólans enda allt Háskólatorg ónothæft á meðan beðið er með viðgerðir.
Þetta hefur valdið því að háskólinn hefur þurft að taka húsnæði á leigu fyrir samtals 50 milljónir króna.
Munuð þið sækjast eftir bótum fyrir þann kostnað líka?
Já, við munum sækja þetta, líka afleidda tjónið. Það er engin spurning. Við viljum fá botn í þetta sem allra fyrst,“ segir Jón í lokin.