Apótekið verðlaunað fyrir bestu jólaskreytinguna

Þetta er í fyrsta sinn sem borgin veitir þessa viðurkenningu.
Þetta er í fyrsta sinn sem borgin veitir þessa viðurkenningu. Ljósmynd/Aðsend

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti í dag Apótekinu viðurkenningu fyrir bestu jólaskreytingu 2021 hjá rekstraraðila í miðborginni. 

Þetta er í fyrsta sinn sem borgin veitir þessa viðurkenningu og segir í fréttatilkynningu að með henni sé ætlað að hvetja rekstraraðila til að skreyta hjá sér, til þess að skapa fallega, hlýlega og jólalega ásýnd í miðborginni.

Ljósmynd/Aðsend

Langaði að lífga upp á miðbæinn

Í tilkynningunni segir einnig að Apótek Kitchen og Bar sé vel að viðurkenningunni komið og að lýsingin hafi skapað fallega og jólalega ásýnd í hjarta Reykjavíkur og að skreytingarnar séu vel útfærðar fagurfræðilega og lýsa upp allt umhverfið í skammdeginu.

Það var Eva Hrönn Guðnadóttir hjá Kríu hönnunarstofu sem hannaði skreytingarnar og setti þær upp ásamt föður sínum, Guðna Oddssyni.

Bergdís Örlygsdóttir, eigandi Apóteksins, segir í tilkynningunni það vera frábært að fá viðurkenninguna. „Það er búið að vera dimmt yfir og okkur langaði að gera eitthvað skemmtilegt í ár, lífga aðeins upp á miðbæinn,“ er haft eftir henni.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert