Slökkviliðið og lögreglan eru með viðbúnað við Hafnarfjarðarhöfn, að því er vaktmaður slökkviliðsins staðfestir við mbl.is.
Ekki fást upplýsingar um hvað hafi fundist í höfninni að svo stöddu.
Þá óskaði lögregla eftir aðstoð björgunarsveitarinnar í Hafnarfirði auk þess sem köfunardeild Landhelgisgæslunnar var kölluð til í Hafnarfjörð nú í kvöld.
Umfangsmikil leit hefur farið fram á svæðinu að Almari Yngva Garðarssyni, sem ekkert hefur spurst til síðan um aðfaranótt sunnudags.
Uppfært kl. 21.39: Skúli Jónsson stöðvarstjóri lögreglustöðvarinnar í Hafnarfirði staðfestir í samtali við mbl.is að bifreið sem leitað var að í tengslum við hvarf Almars hafi fundist í Hafnarfjarðarhöfn.
Samkvæmt heimildum mbl.is var leitinni beint að höfninni eftir ábendingar sem borist hafa lögreglu samhliða leitinni en björgunarsveitir hafa leitað síðan klukkan eitt í dag.