Einar Karl, Nanna og Þorsteinn metin hæfust

Þorsteinn Magnússon framkvæmdastjóri óbyggðanefndar (t.v.), og Nanna Magnadóttir formaður úrskurðarnefndar …
Þorsteinn Magnússon framkvæmdastjóri óbyggðanefndar (t.v.), og Nanna Magnadóttir formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála (t.h.) voru metin hæfust vegna embættis við Héraðsdóm Reykjavíkur, en Einar Karl Hallvarðsson ríkislögmaður var metinn hæfastur vegna embættis við Héraðsdóm Suðurlands. Samsett mynd

Einar Karl Hallvarðsson ríkislögmaður var metinn hæfastur umsækjenda um skipun dómara með fyrsta starfsvettvang hjá Héraðsdómi Suðurlands. Þau  Nanna Magnadóttir formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, og Þorsteinn Magnússon framkvæmdastjóri óbyggðanefndar, voru metin hæfust af umsækjendum til að hljóta skipun í embætti dómara með fyrsta starfsvettvang hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.

Þetta er niðurstaða dómnefndar um hæfni umsækjenda í embættin, en nefndin hefur skilað umsögn sinni. Voru embættin auglýst laus til umsóknar 15. október. Samtals bárust níu umsóknir í stöðuna við Héraðsdóm Reykjavíkur, en einungis tveir sóttu um embættið við Héraðsdóm Suðurlands.

Tekur nefndin fram í umsögn sinni að þau Nanna og Þorsteinn séu hæfust og að ekki verði gert upp á milli þeirra. Dómnefndina skipuðu: Eiríkur Tómasson formaður, Kristín Benediktsdóttir, Óskar Sigurðsson, Sigríður Þorgeirsdóttir og Þorgeir Örlygsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert