Ekki ástæða til að fá örvunarskammt fyrr

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist frekar taka mið af stöðunni á Landspítala heldur en smittölum hvers dags er kemur að því að meta stöðuna í samfélaginu. Þá segir hann mikilvægt að fólk láti bólusetja sig með örvunarskammti til þess að vinna gegn Ómíkron-afbrigðinu en ekki sé endilega ástæða til að stytta tímann á milli bólusetninga.

Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, sagði í samtali við mbl.is í morgun að ef smit yrðu 300 á dag væri staðan orðin virkilega alvarleg.

Þórólfur segist ekki hafa neina sérstaka tölu sem gefi til kynna að staðan sé orðin sérstaklega alvarleg. Hann segist aðallega miða við stöðuna á Landspítalanum.

„Hvað getur spítalinn tekið við mörgum, og ef það þarf að taka á móti svo mörgum, hvað þarf þá að gerast varðandi sjúklinga sem þurfa að leggjast inn. Það er verið að skoða þær sviðsmyndir og hvaða möguleikar eru í stöðunni ef að sú staða kæmi upp.“

Á laugardag lést sjö­tug­ur karl­maður á Land­spít­ala vegna Covid-19. Að sögn Þórólfs var maðurinn óbólusettur og hafði legið inni á spítala í einhvern tíma vegna veikinda af völdum veirunnar. 

Nokkuð um að fólk sýkist aftur

Spurður hvort að algengt sé að fólk sé að smitast aftur af Covid-19 segir Þórólfur að nokkuð sé um það.

„Það er greinilegt að bólusetningin og fyrri smit eru að vernda ágætlega gegn Delta-afbrigðinu. Síðan kemur þetta Ómírkon-afbrigði með nýtt landslag sem við höfum fyrir framan okkur. Það virðist vera að fyrri Covid-sýkingar séu ekki að vernda neitt sérstaklega vel gegn þessu nýja afbrigði og að tvær sprautur séu ekki að vernda neitt sérstaklega vel heldur gegn þessu afbrigði.“

Hann nefnir að örvunarskammturinn veiti töluverða vernd gegn Ómíkron en ekki sé þó vitað nákvæmlega hversu góða.

„Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir núna þá virðist vera töluverð vernd af örvunarskammtinum þó hún sé kannski ekki jafnmikil og gegn Delta-afbrigðinu. Þess vegna þurfum við áfram að hvetja fólk til að mæta í örvunarskammtinn,“ segir Þórólfur.

Betri örvun eftir fimm mánuði

Bretar leggja nú mikla áherslu á að bólusetja fólk með örvunarskammti en einungis þurfa að líða þrír mánuðir frá síðustu bólusetningu. Hér á landi þurfa hins vegar að líða fimm mánuðir fyrir örvunarskammtinn.

Þórólfur segir að rökin fyrir lengri tíma á milli bólusetninga sé betri örvun. „Áhættan við að gera þetta of snemma er að maður fái skammvinnari og minni vernd þegar upp er staðið heldur en að bíða aðeins.“

Hann nefnir að mjög mismunandi sé eftir löndum hversu lengi sé beðið eftir örvunarskammti og að það fari einnig eftir hversu mikið af bóluefni sé til.

„Ég sé ekki neina ástæðu til þess að endilega breyta um taktík núna en auðvitað er þetta alltaf í skoðun og það kann vel að vera að við förum í styttri tíma en það er allavega ekki á borðinu núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert