Ekki fleiri smit komið upp

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis.
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, segir að hann hafi ekki fengið fréttir af fleiri smitum á meðal þingmanna eða stafsfólks Alþingis frá því á laugardag. 

Allur þingflokkur Viðreisnar ásamt Oddnýju Harðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar og fjögurra starfsmanna þingsins hafa greinst með Covid-19 á síðustu dögum. 

Kalla þurfti inn sex varaþingmenn vegna smitanna og rituðu fimm þeirra undir drengskaparheit við stjórnarskránna á stuttum þingfundi í morgun. 

Birgir segist ekki tilbúinn að fullyrða að smitrakningu innan þingsins sé lokið, en vonast eftir að búið sé að ná utan um smitin „en maður þorir ekki að slá neinu föstu“ . Hann segir flesta þingmenn hafa farið í skimun, alla sem hafa verið í samskiptum við smitaða og alla sem sátu fundi með þeim. 

Þingfundur á morgun

„Við reynum að ljúka þeim verkum sem við þurfum að klára fyrir jól og áramót sem eru auðvitað fyrst og fremst fjárlögin og fjárlagatengd mál og mál sem eru með einhverjum hætti bundin við áramótin,“ segir Birgir um næstu daga í þinginu. 

Hann segist gera ráð fyrir að nefndarálit fjárlaganefndar á fjárlögum ársins 2022 muni liggja fyrir í kringum hádegi í dag og á fjáraukalögum fyrir árið 2021 síðar í dag. Þá skili efnahags- og viðskiptanefnd af sér nefndaráliti fyrir svokallaðan bandorm sömuleiðis bráðlega svo að önnur umræða þessara þingmála geti farið fram fyrir jól og sú þriðja á milli jóla og nýárs. Gert sé ráð fyrir þingfundi á morgun og á miðvikudag og síðan á milli jóla og nýárs. 

Tilmæli um að fara í hraðpróf

Tilmæli hafi verið gerð til þingmanna um að fara reglulega í hraðpróf og þingsalur er áfram notaður í stækkaðri mynd, þar sem hliðarsalir eru nýttir svo að tryggja megi fjarlægð á milli sessunauta. Nefndarfundir og þingflokksfundir fara fram í fjarfundi í dag og boðið er upp á hraðpróf innan þingsins ásamt því að þingmenn hafa sjálfir haft frumkvæði á að fara í PCR-próf. 

„Við reynum að samræma þetta tvennt; annars vegar að viðhafa varkárni og hins vegar að klára það sem upp á okkur stendur,“ segir Birgir. 

Þá segir Birgir að röskun vegna Covid-19 smitanna hafi í raun ekki verið mikil. Til hafi staðið að halda þingfund í dag en dagskrárliðum hans frestað til dagsins á morgun og þess í stað aðeins stuttur fundur í morgun til að taka inn varaþingmenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert