Um 200 björgunarsveitarmenn taka þátt í leit að Almari Yngva Garðarssyni og voru björgunarsveitir ræstar út klukkan eitt í dag, en leitarsvæðið er stórt og vísbendingarnar fáar.
Fyrst var lýst eftir Almari í gær en ekkert hefur spurst til hans síðan um aðfaranótt sunnudags.
Þyrla Landhelgisgæslunnar kembdi ströndina frá Þorlákshöfn að Straumsvík í dag en varð að stöðva við hafnir vegna lélegs skyggnis í dag.
Skúli Jónsson, stöðvarstjóri lögreglustöðvarinnar í Hafnarfirði, segir að leitarsvæðið sé ansi stórt og margir komi að málinu, lögreglumenn stöðvarinnar, rannsóknarlögreglumenn og björgunarsveitarmenn.
„Við erum ekki að fá mikið af vísbendingum þannig að leitarsvæðið er suðvesturhornið. Í nágrenni við höfuðborgina. Við höldum bara áfram að leita, þannig er bara staðan. Það bólar ekki á honum ennþá og ekki bílnum,“ segir Skúli.
Lögreglan hefur gefið út að ekki liggi fyrir grunur um að neitt saknæmt hafi gerst en Skúli segir samt sem áður að það sé alltaf litið alvarlegum augum þegar tilkynnt er um týndan einstakling.
Davíð Már Bjarnason upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir að hátt í 200 björgunarsveitarmenn taki þátt í leitinni, sem spannar stórt svæði en leitin beinist aðallega að höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum.