„Mesti árangurinn er kannski að taka þátt í þessari loftslagsvegferð landbúnaðarins. Fólk fær mikla fræðslu og með henni erum við að breyta hefðum og hugsunarhætti,“ segir Berglind Ósk Alfreðsdóttir, verkefnisstjóri Loftslagsvæns landbúnaðar. Sauðfjárbónda á Suðurlandi tókst að kolefnisjafna allan búskap sinn með því að endurheimta votlendi á jörðinni. Til viðbótar á hann kolefniskvóta sem verður að verðmætum þegar markaður með kolefniskvóta verður til.
Verkefnið hefur staðið í tvö ár og er fjármagnað af umhverfisráðuneytinu og atvinnuvegaráðuneytinu en auk stjórnvalda standa að því þrjár stofnanir, Ráðgjafarþjónusta landbúnaðarins, Skógrækt ríkisins og Landgræðsla ríkisins.
Verkefnið hófst í byrjun síðasta árs með því að fimmtán sauðfjárbúum var boðin þátttaka. Fleiri sauðfjárbú bættust við í upphafi þessa árs og í haust gengu fjórtán bú í nautgriparækt inn í verkefnið. Nú eru um 40 bændur þátttakendur. Mikill áhugi virðist vera meðal bænda því mun fleiri sækja um þátttöku en hægt er að taka inn hverju sinni. Reiknað er með að hvert bú verði með í fjögur til fimm ár.
Berglind segir að mikil tækifæri séu til að taka til hendinni í loftslagsmálum í landbúnaði. Nefnir hún að 11-12% losunar Íslands séu vegna atriða í landbúnaðarkafla loftslagsbókhaldsins. Þá er ótalin losun vegna véla, olíu og fleiri mála. Einnig er öll landnotkun utan við þennan kafla í bókhaldinu.
Hún segir að í verkefninu sé sjónum beint að öllum tækifærum til að draga úr losun og auka bindingu kolefnis, ekki aðeins landbúnaðarkaflanum. Stefnt sé að því að minnka kolefnisspor bús og jarðar í heild.
Hóparnir fara á námskeið og fræðsla er einnig veitt um netið. Segir hún að verkefnið setji rammann, í samræmi við boðskap landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna um hvaða atriði skipti mestu máli.
Verkefnið er grasrótarmiðað þar sem lagt er upp úr því að þátttakendur komi sjálfir með lausnirnar, hugsi út fyrir kassann í nýsköpun og nýjum lausnum. Því þarf hver bóndi að setja sér markmið og gera áætlun í ellefu til fimmtán liðum á hverju ári um það hvernig hann ætlar að draga úr losun eða auka bindingu. Aðstæður séu mismunandi og aðgerðirnar eftir því.
„Við byggjum á því að markmiðin séu skýr og raunhæft sé að þau skili árangri,“ segir Berglind. Bændurnir fá greitt fyrir þátttöku og verður stuðningurinn að miklu leyti árangurstengdur.
Bendir Berglind á að oft sé samhengi á milli þess að bóndi sinni sínum búskap vel og hann sé loftslagsvænn. Það dragi úr útgjöldum búsins. Málið snúist því öðrum þræði um að bæta búreksturinn. Nefnir hún sem dæmi að hægt sé að nota ýmsar aðferðir til að draga úr þörf fyrir kaup á tilbúnum áburði.
Berglind er ánægð með árangur verkefnisins, það sem af er, en tekur fram að það sé rétt að byrja. Nefnir að mikil eftirspurn sé eftir þátttöku og fyrirspurnir gefi ákveðnar vísbendingar um það. „Við vonumst til þess að verkefnið verði útvíkkað og stækkað á næsta ári. Það grundvallast á því hvaða áherslur ný ríkisstjórn setur í því efni,“ segir Berglind.
Hún lítur á fyrstu hópana sem frumkvöðla, sér þá fyrir sér sem leiðtoga stéttarinnar í loftslagsvænum landbúnaði í framtíðinni. Hún bætir því við að margir bændur telji loftslagsmálin mikilvægan lið í ímynd bændastéttarinnar. Þess vegna sé betra fyrir greinina að taka frumkvæðið en láta teyma sig áfram.
Verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður fékk fyrr í vetur heiðursviðurkenningu Festu og Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum.
Berglind telur að þessi mikilsverða viðurkenning geti orðið lyftistöng fyrir verkefnið. „Hún er ómetanleg hvatning fyrir bændur til að vera virkir þátttakendur í loftslagsvegferðinni og eflir okkur sem stöndum á bak við verkefnið við að halda ótrauð áfram,“ segir Berglind.
Kjartan Lárusson og Auður G. Waage, bændur í Austurey 1, eru í hópi sauðfjárbænda sem hófu þátttöku í loftslagsverkefninu í byrjun ársins. „Það gerðum við til að geta kolefnisjafnað búið, komast réttum megin við núllið,“ segir Kjartan. Þau eru með tiltölulega lítið sauðfjárbú, voru með 120 kindur á fóðrum síðasta vetur og fækkuðu niður í 100 í haust.
Kjartan segir að margt hafi komið sér á óvart þegar hann reiknaði kolefnisspor búrekstursins. Nefnir að keypt aðföng, svo sem áburður, plast, olía og kjarnfóður, losi um 22 tonn á ári. Hins vegar sé losun vegna búfjáráburðar og innyflagerjunar kindanna meira en tvöfalt meiri, eða 55 tonn. Hann segir að skýringin sé sú að kolefnislosun aðfanganna, til dæmis áburðar, falli á framleiðslulandið. Það sé aðeins flutningurinn heim á bæinn sem teljist til losunar búsins.
„Þetta er einkennilegt. Það er ég sem menga með notkun áburðarins og ætti að þurfa að kolefnisjafna hana. Þetta er sama og með álið. Mikil álframleiðsla hér gerir það að verkum að Ísland er með mikla losun á hvern íbúa,“ segir Kjartan.
Hann hefur verið að undirbúa ýmsar aðgerðir til að draga úr losun í búrekstrinum. Fyrsta verkefnið var þó að endurheimta votlendi. Það gerði hann sjálfur með því að setja fjórar litlar stíflur í 1400 metra langan skurð sem grafinn var fyrir um 60 árum. Honum fannst of mikið jarðrask við að moka ofan í allan skurðinn. Með þessu móti endurheimti hann að minnsta kosti 25 hektara sem eiga að skila honum 487 tonnum í árlegri bindingu. Er það margföld sú losun sem stafar af búrekstrinum. Segist Kjartan eiga töluverðan kolefniskvóta sem hann geti gert sér mat úr ef og þegar hann verður að markaðsvöru.
Kjartan er að huga að öðru verkefni um bindingu kolefnis. Er að athuga með leyfi til að græða upp sandmela á Laugarvatnsvöllum. Hyggst hann fá fleiri bændur til liðs við sig í því.
Auk mjólkurframleiðslu er töluverð nautakjötsframleiðsla á Kanastöðum og hrossarækt. Þá er stunduð trjárækt.
„Ég ræðst fyrst á það sem er auðveldast, þá mengun sem maður þekkir sjálfur, svo sem olíuna. Ég finn lykt þegar traktorinn er settur í gang en finn enga lykt þegar kýrnar ropa eða þegar lofttegundir rjúka upp af landinu,“ segir Eiríkur.
Það fyrsta sem Eiríkur gerði eftir að búið var valið til þátttöku í verkefninu var að kaupa liðlétting sem gengur fyrir rafmagni. Tækið er notað til að færa rúllur og til fleiri verka. „Í vetur nota ég enga dísilolíu við heygjafir,“ segir Eiríkur. Þau hjónin hafa einnig keypt sér bíl sem gengur eingöngu fyrir raforku. Þótt það komi ekki beint inn í loftslagsbókhald búsins segir Eiríkur að heimilishald sveitaheimils sé nátengt búrekstrinum og því hafi rafmagnsbíllinn óbein áhrif.
Margar hugmyndir eru í gangi. Eiríkur er að huga að því að sá smára með grasfræi við ræktun. Niturbindandi bakteríur fylgja smáranum og hafa þær áhrif út fyrir rætur jurtarinnar og er því hægt að draga úr notkun tilbúins áburðar.
Hann telur unnt að nýta búfjáráburð betur en nú er gert. Er hann byrjaður á því að setja haugmeltu í skítinn en hún takmarkar útskolun áburðarefna. Það leiðir til þess að hægt er að draga úr notkun tilbúins áburðar, sem því nemur.
Kanastaðir eru stór jörð og þar sér Eiríkur tækifæri til aukinnar skógræktar og uppgræðslu á ógrónu landi. Kæmi það til viðbótar miklum skjólbeltum sem ræktuð hafa verið við túnin á bænum.
Stór hluti af útblæstri búa kemur úr iðragerjun skepnanna sem þær ropa út úr sér. Erfitt er við það að eiga en Eiríkur segir að víða sé verið að finna leiðir til að draga úr þessu vandamáli.
Loks nefnir Eiríkur að mikil olíunotkun sé við heyskapinn. Hann sér þó ekki að rafmagnið muni leysa olíuna af hólmi á þeim vettvangi heldur þurfi metan eða vetni. Ekki sé ljóst hvaða leið verði farin þar.