„Sástu jólasveininn?“ spurði fjögurra stúlka föður sinn, Henrý Örn Magnússon, þegar hann kom heim eftir að hafa gengið til rjúpna í nágrenni höfuðborgarsvæðisins á nýafstöðnu veiðitímabili. Henrý játti því og þá spurði dóttirin hvort hann hefði ekki tekið mynd. Það gerði hann reyndar ekki en lofaði dóttur sinni, Maríu, að gera það í næstu veiðiferð.
Í þeirri ferð rakst Henrý aftur á jólasvein á svipuðum slóðum, Bjúgnakræki í þetta sinn, sem var að gera sig ferðbúna til mannbyggða á aðventunni. Hann tók vel í beiðni Henrýs um að taka af sér mynd og sendi auk þess skemmtilega kveðju til Maríu, sem Henrý tók upp á
myndband. Síðan lá leið Bjúgnakrækis aftur heim, þar sem Grýla beið með soðin bjúgu í pottinum.
„Hún fékk að sjá myndbandið og var mjög ánægð, vakti mikla kátínu hjá henni,“ segir Henrý Örn.
Bjúgnakrækir kom einmitt til byggða í nótt, til að gleðja Maríu og önnur börn sem höfðu sett skóinn út í gluggann. Nú stytttist í jólin og aðeins fjórir bræður Bjúgnakrækis eiga eftir að koma. Næstu nótt er Gluggagægir væntanlegur, síðan Gáttaþefur og Ketkrókur og síðastur
mætir Kertasníkir þann 24. desember, aðfangadag jóla.