Mætti Bjúgnakræki á fjöllum

„Sástu jólasveininn?“ spurði fjögurra stúlka föður sinn, Henrý Örn Magnússon, þegar hann kom heim eftir að hafa gengið til rjúpna í nágrenni höfuðborgarsvæðisins á nýafstöðnu veiðitímabili. Henrý játti því og þá spurði dóttirin hvort hann hefði ekki tekið mynd. Það gerði hann reyndar ekki en lofaði dóttur sinni, Maríu, að gera það í næstu veiðiferð.

Í þeirri ferð rakst Henrý aftur á jólasvein á svipuðum slóðum, Bjúgnakræki í þetta sinn, sem var að gera sig ferðbúna til mannbyggða á aðventunni. Hann tók vel í beiðni Henrýs um að taka af sér mynd og sendi auk þess skemmtilega kveðju til Maríu, sem Henrý tók upp á
myndband. Síðan lá leið Bjúgnakrækis aftur heim, þar sem Grýla beið með soðin bjúgu í pottinum.

„Hún fékk að sjá myndbandið og var mjög ánægð, vakti mikla kátínu hjá henni,“ segir Henrý Örn.

Bjúgnakrækir kom einmitt til byggða í nótt, til að gleðja Maríu og önnur börn sem höfðu sett skóinn út í gluggann. Nú stytttist í jólin og aðeins fjórir bræður Bjúgnakrækis eiga eftir að koma. Næstu nótt er Gluggagægir væntanlegur, síðan Gáttaþefur og Ketkrókur og síðastur
mætir Kertasníkir þann 24. desember, aðfangadag jóla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert