Ómíkron mun ná yfirhöndinni á næstu dögum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir smit-kúrvuna áfram rjúka upp en 220 greindust smitaðir í gær og er um metfjölda smita að ræða.  Hann svipaða þróun vera hér líkt og á hinum Norðurlöndunum, þá sérstaklega í Danmörku og Noregi. „Þetta er bara sama sagan.“

Er Ómíkron að ná yfirhöndinni hérlendis?

„Já, ég held það. Það hefur verið mikil fjölgun á Ómíkron-tilfellum. Þau eru um 200 nú og kannski fleiri,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is og bætir við nýjustu upplýsingar eigi eftir að berast honum.

„Það er alveg greinilegt að Ómíkron-afbrigðið er miklu meira smitandi, smitast hraðar og fer hraðar yfir heldur en Delta-afbrigðið og mun þannig að öllum líkindum ná yfirhöndinni á næstu dögum eða vikum.“

600 smit á einum degi geti gerst

Már Kristjánsson, yf­ir­lækn­ir á smit­sjúk­dóma­deild, sagði í viðtali við mbl.is í gær að búast mætti við um 600 smitum á dag ef fjöldi smita hérlendis fylgir eftir veldisvexti smita í Danmörku. 

Þórólfur segir erfitt að segja til um þróunina. „Þetta er spá miðað við hvað hefur gerst í Danmörku. Þeir eru á svipuðum stað og við í bólusetningum, við erum þó búin að bólusetja fleiri með örvunarbólusetningu. En ef við notum tölurnar sem þeir eru að sjá og yfirfærum það á okkur þá gætum við séð einhverjar svona tölur. Við höfum ekkert annað í höndunum. Hvort að það er raunhæft eða ekki raunhæft er erfitt að segja til um. Það er ekkert sem segir til um að þetta geti ekki gerst hér.“

Þórólfur segir því að landsmenn þurfi að undirbúa sig fyrir því að sjá mörg smit. „En ef það gerist ekki þá bara gleðjumst við yfir því.“

Megum ekki glepjast

Þórólfur nefnir að Danir hafa greint um 18 þúsund tilfelli af Ómíkron og um 0,7% þeirra hafa þurft að leggjast inn á spítala. Því er um lægra hlutfall en hefur sést vegna Delta-afbrigðisins.

„Á móti kemur að ef útbreiðslan verður mjög mikil og hraðari en Delta þá getum við fengið svona mikinn fjölda smita á nokkrum dögum sem getur gert þetta mjög erfitt. Við megum ekki láta glepjast af því að þó að langflestir fái þetta mjög vægt þá erum við með hóp sem getur veikst mjög alvarlega og getur orðið það stór að við lendum í vandræðum.“

Dágóður fjöldi greinst með falskt jákvætt

Þórólfur segir að einhver hundruð hafi greinst með hraðgreiningaprófum en mikil eftirsókn hefur verið í þau undanfarna daga vegna stærri viðburða sem skylda neikvætt próf.

Hann nefnir þó að dágóður fjöldi hafi greinst með falskt jákvætt próf sem hefur síðan reynst neikvætt þegar fólk fer í PCR-próf.

Hann segir að prófin reynist vel en séu ekki 100% frekar en annað. „Það þarf að muna það að ýmislegt getur gerst á 48 klukkustundum frá því að prófið var tekið þar til maður fer á viðburðinn. Við erum að gera okkar besta til að halda hlutunum gangandi og hafa þá eins trygga og örugga og hægt er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert