Sveitarfélögin hafa samþykkt að lána húsnæði sín til bólusetningar barna eldri en fimm ára. Þetta staðfestir Jón Viðar Matthíasson, framkvæmdastjóri almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is en bólusetning barna á aldrinum 5 til 11 hefst eftir áramót.
Framkvæmdaráð almannavarnanefndar fundaði um málið með heilsugæslunni í dag. Jón Viðar segir að líklegast verði bólusett í grunnskólum sveitarfélaganna.
Samtökin frelsi og ábyrgð sendu bréf til almannavarna þar sem lýst er áhyggjum vegna áætlana um að bólusetja börn í húsnæði skólanna.
„Verði þessum áætlunum framfylgt má leiða líkur að því að það verði á allra vitorði, nemenda og starfsfólks skólans, hverjir hafa eða hafa ekki fengið umrædda sprautu,“ segir í bréfinu.
Jón Viðar segir að bréfið hafi ekki verið rætt á fundinum í dag þar sem hlutverk sveitarfélaganna sé að lána húsnæðið, ekki meta hvort að bólusetning barna sé góð eða ekki.
„Það er í raun heilbrigðisstarfsmanna og annarra að svara fyrir það. Við erum bara í raun að lána húsnæði og þurfum að passa að það skipulag gangi eftir.“
Jón Viðar segir undirbúninginn ganga vel en þó eigi eftir að funda betur um nokkra hluti. „Að öðru leyti er góður taktur í því að halda áfram með þetta verkefni.“