Sveitarfélögin lána húsnæði til bólusetningar

AFP

Sveitarfélögin hafa samþykkt að lána húsnæði sín til bólusetningar barna eldri en fimm ára. Þetta staðfestir Jón Viðar Matth­ías­son, fram­kvæmda­stjóri al­manna­varna­nefnd­ar höfuðborg­ar­svæðis­ins, í samtali við mbl.is en bólusetning barna á aldrinum 5 til 11 hefst eftir áramót. 

Fram­kvæmdaráð al­manna­varna­nefnd­ar fundaði um málið með heilsu­gæsl­unni í dag. Jón Viðar segir að líklegast verði bólusett í grunnskólum sveitarfélaganna.

Jón Viðar Matth­ías­son, fram­kvæmda­stjóri al­manna­varna­nefnd­ar höfuðborg­ar­svæðis­ins.
Jón Viðar Matth­ías­son, fram­kvæmda­stjóri al­manna­varna­nefnd­ar höfuðborg­ar­svæðis­ins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sam­tök­in frelsi og ábyrgð sendu bréf til al­manna­varna þar sem lýst er áhyggj­um vegna áætl­ana um að bólu­setja börn í hús­næði skól­anna. 

„Verði þess­um áætl­un­um fram­fylgt má leiða lík­ur að því að það verði á allra vitorði, nem­enda og starfs­fólks skól­ans, hverj­ir hafa eða hafa ekki fengið um­rædda sprautu,“ seg­ir í bréf­inu.

Ekki þeirra hlutverk að meta bólusetninguna

Jón Viðar segir að bréfið hafi ekki verið rætt á fundinum í dag þar sem hlutverk sveitarfélaganna sé að lána húsnæðið, ekki meta hvort að bólusetning barna sé góð eða ekki. 

„Það er í raun heilbrigðisstarfsmanna og annarra að svara fyrir það. Við erum bara í raun að lána húsnæði og þurfum að passa að það skipulag gangi eftir.“

Jón Viðar segir undirbúninginn ganga vel en þó eigi eftir að funda betur um nokkra hluti. „Að öðru leyti er góður taktur í því að halda áfram með þetta verkefni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert