Kona á fertugsaldri var í síðustu viku dæmd í 17 mánaða óskilorðsbundið fangelsi vegna ítrekaðra brota. Var hún á einu ári, frá því í maí í fyrra til og með maí á þessu ári stöðvuð fimmtán sinnum af lögreglu þar sem hún ók undir áhrifum. Var hún jafnframt í öll skiptin að aka án réttinda. Þá stal hún í eitt skiptið bifreið og í annað skiptið skilaði hún ekki bifreið sem fékkst í reynsluakstur. Í bæði skiptin var hún tekin við akstur undir áhrifum.
Konan var jafnframt fundin sek um tvö önnur fíkniefnabrot, fyrir að hafa í tvígang vísað fölsuðum umboðum til að reyna að taka út lyf í apóteki og fyrir stuld úr verslun og að hafa stolið fartölvu og öðrum raftækjum úr húsnæði í Hafnarfirði.
Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur var konan undir áhrifum amfetamíns, kókaíns, MDMA og slævandi lyfja þegar hún var stöðvuð við aksturinn í þessi fimmtán skipti. Tekið er fram að hún eigi að baki nokkuð langan sakaferil sem nái aftur til ársins 2004, en þar er einnig um að ræða akstursbrot, fíkniefnalagabrot og þjófnað.
Gekkst konan undir tvær sáttir við lögregluna í fyrra áður en hún var dæmd í hálfs árs skilorðsbundið fangelsi í lok árs. Er hluti brota hennar nú hegningarauki við fyrri brot, en hluti er hins vegar brot á skilorði vegna fyrri dómsins.
Tekið er fram í dóminum að svona mörg og ítrekuð brot hafi ítrekunaráhrif í dóminum og þykir því 17 mánaða fangelsi við hæfi. Segir að það horfi til refsilækkunar að hún hafi játað brot sín og hún sé í dag edrú og sé í vímuefnameðferð. Hins vegar þyki ekki ástæða til að skilorðsbinda dóminn með hliðsjón af sakaferli hennar.