Verður í hlutverki Ágústusar keisara um jólin

Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsa Rauða krossins, blágrænn fyrir járnum.
Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsa Rauða krossins, blágrænn fyrir járnum. mbl.is/Ásdís

Starfsfólk farsóttarhúsa Rauða krossins mun gera sitt allra besta til þess að þeir sem þar dvelja yfir hátíðarnar geti upplifað jólastemningu, að sögn Gylfa Þórs Þorsteinssonar umsjónarmanns.

Hann segir alveg heimilt fyrir aðstandendur að koma með gjafir, smákökur og jólamat að heiman til þess að gleðja ástvin í einangrun. Miðað við þróunina undanfarna daga má gera ráð fyrir að um 200 manns þurfi inni í farsóttarhúsum yfir jólin.

„Það verður betri matur og við erum að reyna að setja upp rafrænt bingó og annað slíkt til þess að gera fólki auðveldara að drepa tímann. Þannig við erum svona að sjá hvað við getum gert. En það er alveg ljóst að það verða hjá okkur hátt í 200 manns á aðfangadag,“ segir Gylfi við mbl.is.

Rafrænt bingó og fleiri helgir leikir

Jólin í ár verða önnur í röðinni sem haldin eru hátíðleg í skugga faraldurs. Gylfi og hans fólk í farsóttarhúsunum búa því að reynslu frá því í fyrra.

„Við vorum hérna í fyrra hlaupandi upp og niður allar hæðir með gjafir og mat að heima og smákökur og allan pakkann. Sumir klæddu sig upp og voru í sínu fínasta pússi á aðfangadag. Og það er um að gera að senda vinum og ættingjum eitthvað gleðilegt til að stytta þeim stundirnar yfir hátíðarnar.“

Gylfi er spurður að því hvort einhverjir gestir beri nöfnin María og Jósef, svona til að kóróna hátíðleikann. Ekki er það nú svo gott en Gylfi segir þó að allt geti gerst og ekki sé nema von að helgileikurinn sjálfur raungerist í farsóttarhúsum um hátíðarnar.

En ef svo ber undir, þá ert þú kannski í hlutverki Ágústusar keisara?

„Já, ég skráset þetta auðvitað allt saman og geng á milli herbergja og vísitera – og er með manntal,“ segir Gylfi léttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert