Gert er ráð fyrir 450 milljóna króna framlagi úr ríkissjóði á næsta ári vegna breyttrar skipunar Stjórnarráðsins sem ákveðin var þegar ný ríkisstjórn var mynduð. Þetta kemur fram í greinargerð meirihluta fjárlaganefndar Alþingis með breytingarrtillögum við fjárlagafrumvarpið.
Að auki gerir nefndarmeirihlutinn tillögu um 56,3 milljóna króna hækkun útgjalda vegna fjölgunar ráðherra og aðstoðarmanna í samræmi við skipan ríkisstjórnarinnar þann 28. nóvember sl. Ráðherrum fjölgar um einn og aðstoðarmönnum um tvo.
Samkvæmt forsendum fjármála- og efnahagsráðuneytis nemur árlegur launakostnaður ásamt launatengdum gjöldum vegna stofnunar nýs ráðuneytis um 130 milljónum króna vegna ráðuneytisstjóra, ritara, bílstjóra og þriggja almennra starfsmanna. Annar rekstrarkostnaður er áætlaður um 40 m.kr. á ári fyrir hvort ráðuneyti. Því til viðbótar þarf að gera ráð fyrir tímabundnum viðbótarkostnaði við húsaleigu fyrir eitt ráðuneyti, allt að 40 m.kr. Jafnframt þarf að gera ráð fyrir einskiptisfjárfestingu í búnaði og tækjum, 15 m.kr. fyrir hvort ráðuneyti.
Nefndarmeirihlutinn segir, að ekki liggi fyrir á þessu stigi endanlegt innra skipulag nýrra ráðuneyta, tilfærsla núverandi starfsmanna og breyttar starfsáherslur, m.a. í tengslum við stefnumál ríkisstjórnarinnar samkvæmt stjórnarsáttmála. Því sé óvissa um í hvaða mæli ráða þarf til starfa aukið starfslið. Að samanlögðu megi telja að heildarkostnaður við stofnun tveggja nýrra ráðuneyta gæti numið um 505 milljónir fyrsta árið, en þar af færast 450 m.kr. á þennan málaflokk.
Samhliða breytingum á Stjórnarráðinu hefur verið ákveðið að endurskoða fyrirkomulag stoðþjónustu ráðuneyta með það að markmiði að auka samrekstur. Gert er ráð fyrir að slík breyting muni leiða til aukins hagræðis í rekstri. Ekki er gert ráð fyrir þeim ávinningi í framangreindum forsendum.