Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir þær samkomutakmarkanir sem taka gildi á miðnætti vera í eðlilegu samhengi við fjölda smita sem hafa sést síðustu daga.
„Það hefði verið óábyrgt að gera ekkert,“ segir Bjarni.
Spurður hvort að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sé sáttur við harðari takmarkanir svaraði Bjarni því að það væru uppi spurningar hjá flokksmönnum um það hvaða áhrif örvunarbólusetningar hafa í heildarmyndinni.
„Kannski er ekki kominn ennþá sá tími að því sé hægt að svara nákvæmlega. Við höfum þó vísbendingar um að örvunarbólusetningin hafi jákvæð áhrif fyrir þá sem hana þiggja hvað veikindin snertir og mögulega gagnvart smitunum það er þó ekki alveg skýrt ennþá.“
„Þess vegna er kall eftir því að á sama tíma og við bregðumst við ástandinu á grundvelli upplýsinga sem breytast frá degi til dags, þá verðum við á sama tíma að teikna upp nýja framtíðarsýn, eitthvað plan um það hvernig við hyggjumst tryggja sem fyrst að fólk endurheimti eðlilegt líf.“