Dagur B. kallar eftir viðspyrnu

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kallar eftir viðspyrnustyrkjum.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kallar eftir viðspyrnustyrkjum. Ljósmynd/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri telur að ríkisstjórnin og Alþingi þurfi að skýra hvaða úrræði verði endurvakin í þágu fólks og fyrirtækja í kjölfar takmarkana, hverjum verði framlengt og hverjum ekki. Þetta kemur fram í Facebookfærslu hjá Degi. 

Neyðarstjórn Reykjavíkurborgar fundaði í dag vegna nýrrar reglugerðar ríkisstjórnarinnar um samkomutakmarkanir sem Dagur telur kalla á umtalsverðar breytingar og endurskipulagningu víða. „Þær byggja á ráðgjöf sóttvarnalæknis sem hefur reynst okkur vel í gegnum allan faraldurinn,“ skrifar hann.

„Ég saknaði þess þó sannarlega að ekki væru gefin skýr skilaboð um aðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar til að mæta stöðunni fyrir fólk og fyrirtæki. Margvíslegur rekstur sem hefur staðið kófið af sér með útsjónarsemi og úthaldi þurfti sannarlega á jólavertíðinni að halda til að rétta úr kútnum. Ljóst er að janúar og febrúar geta orðið mörgum fyrirtækjum erfið, ekki síst í veitingarekstri, viðburðahaldi og sviðslistum en það getur einnig átt við um ferðaþjónustu og fleiri,“ skrifar hann.

Bætir hann við að máli skipti að stjórnvöld gefi miklu skýrar til kynna að til standi að koma til móts við fólk og fyrirtæki.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert