Engin skata hjá Sægreifanum

Sægreifinn við Geirsgötu í Reykjavík.
Sægreifinn við Geirsgötu í Reykjavík. Facebooksíða Sægreifans

Nýjar samkomutakmarkanir yfirvalda koma ekki vel við alla og nú hefur þurft að aflýsa árlegri skötuveislu á Sægreifanum, einum rómaðasta veitingastað miðborgarinnar, af þeirra völdum. 

Greint er frá þessu á Facebooksíðu Sægreifans undir yfirskriftinni „Skötusorgartíðindi“. Þar segir að hvorki verði boðið upp á skötu á morgun né á Þorláksmessu. „Annars óskum við ykkur gleðilegra jóla og vonum að þið losnið við allt Covid vesen. Ef Covid leyfir þá ætlum við að vera með Þorláksmessuskötu ásamt skreytingum og jólatónlist í febrúar. Við munum auglýsa vel áður,“ segir í orðsendingu frá starfsfólki Sægreifans. 

Gestum á Sægreifanum er ekki í kot vísað þegar þeir mæta til skötuveislu þar. Fyrir litlar 2.650 krónur fá þeir skötu/saltfisk, kartöflur, rófur, hamsatólg og rúgbrauð. „Svo er auðvitað grjónagrautur í eftirrétt eða Steingrímur eins og gamli kallaði hann alltaf,“ segir í kynningu og er þar vísað til hins kunna veitingamanns Kjartans Halldórssonar sem lést árið 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert