Eyþór Arnalds gefur ekki kost á sér

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur, mun ekki gefa kost á sér á framboðslista flokksins í borgarstjórnarkosningunum í vor. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hann birti á Facebook á miðnætti. 

„Ég mun að sjálfsögðu gegna skyldum mínum út kjörtímabilið og láta síðan af þátttöku í stjórnmálum að sinni,“ segir Eyþór. 

„Ákvörðun mín er tekin af persónulegum ástæðum, ekki pólitískum. Ég er þess fullviss að Sjálfstæðisflokkurinn mun vinna góðan sigur í vor og þeir sem þekkja mig vita að ég óttast ekki niðurstöður í nokkru prófkjöri. Eins er rétt að árétta að ákvörðunin er algjörlega óháð því hvaða fyrirkomulag sjálfstæðismenn í Reykjavík kjósa að viðhafa við val á framboðslista eða hvaða einstaklingar munu gefa kost á sér í því vali,“ segir í yfirlýsingu hans. 

Eyþór rekur að fram undan sé löng og ströng kosningabarátta sem kalli á að allt annað víki á meðan. „Ég hef einfaldlega komist að þeirri niðurstöðu að ég þurfi og vilji meiri tíma til að sinna mér og mínu, heimili og hugðarefnum. Nú er það annarra að taka við keflinu í því boðhlaupi sem pólitíkin er. Sjálfstæðisflokkurinn býr að því að þar er stór og breið forystusveit og enginn hörgull á fólki til þess að taka við því og leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs. Það verður sigur Reykjavíkur og Reykvíkinga,“ segir hann. 

Þá sendir hann kveðjur til bandamanna sinna. „Ég vil þakka öllum þeim sem hafa verið mér samferða á þessari pólitísku vegferð í borginni síðustu fjögur árin, bæði liðsmönnum og mótherjum. Sérstaklega þakka ég auðvitað öllum þeim sem hafa stutt mig dyggilega með ráðum og dáð. Því fólki verð ég ævarandi þakklátur. Ég óska Sjálfstæðisflokknum velfarnaðar í komandi kosningum og ég mun leggja mitt af mörkum til að vinna Sjálfstæðisflokknum brautargengi í vor. Þá vil ég nota tækifærið og óska öllum gleðilegra jóla og friðar og farsældar á nýju ári.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert