Það var tilfinningaþrungin stund þegar Arsalan litli komst heim til Íslands eftir að hafa verið aðskilinn frá foreldrum sínum í rúma fjóra mánuði. Hjónin Khairullah Yosufi og Zeba Sultani flúðu frá Afganistan í ágústlok en neyddust til að skilja hinn þá tveggja mánaða Arsalan eftir í Afganistan en barnið lenti í andnauð í öngþveitinu á flugvellinum í Kabúl.
Khairullah fór til móts við barnið og flaug til Georgíu en þá hafði Arsalan flogið frá Kabúl til Mazar í Afganistan, þaðan til Georgíu, svo til Stokkhólms og loks til Keflavíkur. Var hann í hópi 22 flóttamanna frá Afganistan sem fá hér vernd.
Khairullah var að vonum feginn að komast heim en ferðin var honum erfið, enda þekkti barnið ekki pabba sinn og grét mikið.
„Þetta var erfitt, sonur minn þurfti að fara frá tengdamóður minni sem hafði hugsað um hann allan tímann. Ég var sem ókunnugur maður í hans augum og hann grét mikið. Það var sársaukafullt fyrir mig að horfa upp á. En ég er yfir mig glaður að fá son minn aftur,“ segir Khairullah sem vill þakka íslenskum stjórnvöldum og öllum þeim sem hafa aðstoðað þau í gegnum allt ferlið og ferðalagið.
Arsalan litli svaf vært í burðarrúmi eftir heimkomuna og kippti sér ekki upp við atgang fjölmiðla. Hann vaknaði ekki fyrr en komið var út í bíl og sá þá mömmu sína í fyrsta sinn síðan daginn örlagaríka þegar þau urðu viðskila í ringulreiðinni. Zeba fór í gegum allan tilfinningaskalann þegar hún sá son sinn fyrst sofandi og tár féllu. En í bílnum var hún farin að brosa breitt.
„Ég get varla lýst tilfinningum mínum en ég er mjög hamingjusöm. Ég fékk að sjá son minn aftur eftir fjóra og hálfan mánuð. Tilfinningin er ólýsanleg. Ég vil þakka öllum sem hjálpuðum okkur.“
Linda Rós Alfreðsdóttir, sérfræðingur í málefnum flóttamanna hjá félagsmálaráðuneytinu, tók á móti hópnum í Keflavík, ásamt starfsmönnum Rauða krossins og Fjölmenningarsetursins.
„Það er örugglega mikill léttir fyrir fólkið að komast til Íslands en svo eru líka blendnar tilfinningar því nánir vinir og ættingjar sitja eftir,“ segir Linda og segir það hafa verið mikil vinna að koma þessum síðasta hópi Afgana heim.
„Það opnaðist gluggi skyndilega og þá var byrjað að vinna á fullu,“ segir Linda og segir flóttamennina hafi verið boðið far með flugvél Svía sem einnig voru að taka á móti flóttamönnum.
„Allir lögðust á eitt til að láta þetta ganga upp.“
Fleiri fagnaðarfundir voru á Keflavíkurflugvelli í gær en hluti hópsins var að sameinast fjölskyldum sínum sem hingað voru þegar komnar. Blaðamaður náði tali af Sohrab Kohi sem knúsaði börnin sín fast og innilega, enda ekki að undra.
„Ég er svo glaður og þakklátur öllum, ríkisstjórninni, Rauða krossinum og utanríkisráðúneytinu. Börnin mín og kona voru að koma en ég kom á undan. Sjáðu þessi börn mín, ég saknaði þeirra mikið! Ég er að sjá þennan minnsta í fyrsta sinn! Þetta er sonur minn,“ segir Sohrab.
„Ég er svo hamingjusamur,“ sagði hann og brosti hringinn.