Ómar Friðriksson
Ýmsar breytingar þarf að gera á fjárlagafrumvarpi næsta árs við aðra umræðu samkvæmt tillögum sem fjármálaráðherra hefur sent fjárlaganefnd fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Þær þýða að afkoma ríkissjóðs versnar um 9,9 milljarða frá því sem lagt var upp með þegar frumvarpið var lagt fram í lok nóvember. Í stað 169 milljarða halla mun hann aukast í 178 milljarða kr. eða 5% af vergri landsframleiðslu.
Þetta kemur fram í minnisblöðum ráðuneytisins til fjárlaganefndar.
Bent er á að ráðherranefnd um ríkisfjármál hefur í umfjöllun sinni sett sér það markmið að breyting á afkomu ríkissjóðs við aðra umræðu um fjárlagafrumvarpið verði í heild ekki umfram tíu milljarða kr. Er nefndinni bent á að lítið svigrúm sé til að taka upp ný og aukin útgjöld eða veita ívilnanir á tekjuhlið án þess að það valdi marktækri röskun á markmiðum um afkomu ríkissjóðs.