Ríkisstjórnin hefur ákveðið að herða sóttvarnaaðgerðir fyrir jól til að sporna gegn útbreiðslu kórónuveirunnar. Þetta kynnti Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi. Tuttugu mega nú koma saman í stað 50 áður og 200 mega koma saman á stærri viðburðum í stað 500 gegn notkun hraðprófa.
Tilkynning á vef Stjórnarráðsins
Reglurnar taka gildi á miðnætti annað kvöld [innsk. blaðamanns: Willum sagði upphaflega að reglurnar tækju gildi á miðnætti en hið rétta er að þær taka ekki gildi fyrr en á miðnætti annað kvöld og leiðréttist það hér með] og gilda í þrjár vikur. Það voru skiptar skoðanir innan ríkisstjórnarinnar. Að meginefni til var farið eftir minnisblaði sóttvarnalæknis.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að stjórnvöld hefðu verulegar áhyggjur af stöðu mála. „Við erum að sjá mikla fjölgun þeirra sem hafa smitast hér á Íslandi. Smitin í kringum 300 í dag.“
Hún sagði að stjórnvöld hefðu rýnt í stöðuna í nágrannalöndunum og að Ómíkron-afbrigðið væri að vaxa mjög hratt. „Þeim fjölgar mjög hratt sem smitast af því.“
Hún bætti við að flestar ríkisstjórnir nágrannalandanna væru að grípa til hertra ráðstafana til að bregðast við ástandinu. „Við vitum líka út frá fyrstu gögnum að veikindi eru minni vegna þessa afbrigðis, en um leið er mikil óvissa um nákvæma vörn bóluefna gagnvart þessu nýja afbrigði,“ sagði Katrín.
„En með þennan mikla fjölda þá sjáum við okkur ekkert annað fært en að grípa til ráðstafana, og það er auðvitað ekki skemmtileg tíðindi að flytja þjóðinni í aðdraganda jóla. Það erum við mjög meðvituð um. En um leið er það okkar ábyrgð að tryggja það að vernda líf og heilsu landsmanna og tryggja að heilbrigðiskerfið standi undir álagi,“ sagði forsætisráðherra.
Willum Þór sagði að stjórnvöld hefðu leyft sér að vera bjartsýn fyrir um hálfum mánuði en ljóst væri að tölurnar hefðu færst til verri vegar undanfarið.
„Það verður bara að segjast og viðurkenna óvissuna sem fylgir þessu nýja afbrigði. Tölurnar segja okkur það að þessi faraldur er kominn á ferðina og í minnisblaðinu kemur fram að það sé í veldisvexti. Þess vegna leggur sóttvarnalæknir til að við beitum harðari takmörkunum,“ sagði Willum.
„Almennt þá erum við að fara úr almennum fjöldatakmörkunum úr 50 í 20. Og við erum að fara með stærri viðburði sem við getum haldið með hraðgreiningarprófum úr 500 í 200. Sundstaðir, líkamsræktarstöðvar og skíðastaðir fara úr 75% af hámarki í 50%. Og svo erum við að fara úr eins metra reglunni í tveggja metra reglu,“ sagði Willum.
Hann sagði ennfremur að stjórnvöld væru með þessu að herða aðeins á en þó þannig að landsmenn gætu t.d. klárað alla jólaverslun og annað sem þyrfti að ljúka fyrir jól.
Hann bætti fram að sóttvarnalæknir hefði lagt til að lengja aðeins skólafrí. „En eftir gott samtal hér í ríkisstjórn þá hefur það nú verið línan hingað til að halda skólunum opnum og tómstundum barna og unglinga til að mynda sem mest. Þannig að við höfum tekið þá ákvörðun að skólarnir haldi sínu striki, en að skólamálaráðherrarnir taki samtalið við skólastjórnendur og starfsmenn skólanna og meti stöðuna.“
Sem fyrr segir þá taka reglurnar gildi á miðnætti og þær gilda í þrjár vikur.
Aðspurð hvort það væri einhugur innan ríkisstjórnarinnar um þessa aðgerðir sagði Katrín: „Það voru skiptar skoðanir en það liggur algjörlega fyrir að ríkisstjórnin hefur tekið þá afstöðu að við fylgjum ákveðinni leið sem við köllum temprunarleið, þ.e. tempra fjölgun smita. Og þegar við erum komin í þá stöðu að við erum að sjá hér 300 smit á dag þá er alveg augljóst að við þurfum hertari ráðstafanir til að takast á við það að hemja þessa fjölgun. Ástæðan er sú að við erum með vísbendingar um hvert innlagnarhlutfallið er, þ.e. þeirra sem veikjast alvarlega. Í þessu tilfelli af Ómíkron. Við erum auðvitað líka með Delta-afbrigðið í gangi. Og það er alveg ljóst að það þarf þá hertari ráðstafanir til að tempra þessa fjölgun.“