Hvernig verða takmarkanirnar um jólin?

Augu flestra beinast að Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu þennan morguninn. Margir …
Augu flestra beinast að Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu þennan morguninn. Margir bíða í ofvæni eftir því að fá að vita hvaða takmarkanir verða í gildi yfir hátíðarnar. mbl.is/Sigurður Bogi

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra mun á eftir kynna þær sóttvarnatakmarkanir sem í gildi verða yfir jól og áramót. Ríkisstjórnarfundi í Ráðherrabústaðnum lýkur að öllum líkindum skömmu fyrir hádegi og mun Willum kynna framhald aðgerða að honum loknum.

Samkvæmt heimildum mbl.is er kveðið á um 20 manna samkomutakmarkanir í minnisblaði sóttvarnalæknis til ráðherra. Metfjöldi smita greindist innanlands í gær, alls 220, og sóttvarnalæknir vill greinilega að gripið sé í hemilinn. 

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sjálfstæðismenn margir ósáttir

Óhætt er að segja að heilbrigðisráðherra standi frammi fyrir erfiðri ákvörðun, bæði í ljósi þess að jól og áramót eru á allra næsta leiti og vegna þess að nú þegar eru komin fram loforð um að hertari takmarkanir muni mæta andstöðu. 

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir þannig á facebooksíðu sinni að hann sé fullur efasemda um hertari aðgerðir. Í samtali við Rúv í morgun sagði hann svo að það væri víðtæk andstaða við hertari aðgerðir innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins og að hertari aðgerðum yrði mótmælt ef sú yrði raunin. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og flokksbróðir heilbrigðisráðherra, virðist þó vera á öðru máli. Hann sagði í samtali við Morgunblaðið í morgun að greinilegt væri að Ómíkron-afbrigði veirunnar væri meira smitandi og að smitum hafi verið að fjölga. 

„Ef við horf­um á reynsl­una, sér­stak­lega í Dan­mörku, þá seg­ir það okk­ur að skyn­sam­legt sé að fara var­lega. Það er í því ljósi sem við för­um á þenn­an rík­is­stjórn­ar­fund og tök­umst á við þetta verk­efni sem virðist eng­an enda ætla að taka,“ sagði Sig­urður Ingi.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnar Smári blæs í flautuna

Og megn óánægja virðist ríkja í garð þeirra flokksbræðra í Framsókn hjá Gunnari Smára Egilssyni, formanni Sósíalistaflokksins. Hann sagði á facebooksíðu sinni að ljóst væri að Willum hefði viljandi lekið minnisblaði Þórólfs, þar sem kom fram að hann vildi herða fjöldatakmörk úr 50 niður í 20 manns. 

Vanalega hefur ekkert sést á spilin hjá Þórólfi þar til ráðherra hefur fengið að taka minnisblað hans um aðgerðir til meðferðar. Gunnar Smári er sannfærður um að Willum hafi þarna verið að leika á sóttvarnalækni. 

„Án leka hefði Will­um mætt á morg­un og til­kynnt um 30 manna fjölda­tak­mark­an­ir og 300 manna hólf skil­greind á fjölda­sam­kom­um og verið vondi kall­inn. Með leka mun Will­um koma fram á morg­un og til­kynna að hann hafi ákveðið að setja á mild­ari tak­mark­an­ir en Þórólf­ur lagði til; 30 manna fjölda­tak­mark­an­ir og 300 manna hólf skil­greind á fjölda­sam­kom­um. Þá er Þórólf­ur vondi kall­inn en Will­um sá mildi,“ skrif­ar Gunn­ar Smári á facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert