Yaaseen Restaurant er nýr kabúlskur veitingastaður sem var opnaður 16. desember að Suðurlandsbraut 10. Tabasom Asadi er bæði eigandi og kokkur staðarins og starfa systkini hennar einnig á veitingastaðnum.
Tabasom Asadi kom til landsins fyrir þremur árum síðan ásamt fjölskyldu sinni og hefur lengi dreymt um að opna sinn eigin veitingastað. Í samtali við mbl.is segir hún að hana hafi langað til þess að kynna kabúlska matarmenningu fyrir Íslendingum.
Aðeins er boðið upp á tvo rétti á veitingastaðnum en þeir eru vinsælustu réttirnir í Kabúl að sögn Tabasom. Hún segir matinn vera bragðsterkan en þó ekki of sterkan fyrir íslenska bragðlauka.
„Við ætlum að byrja smátt, með vinsælasta kabúlska réttinum, kabuli palaw, sem er hefðbundinn hrísgrjónaréttur með möndlum, rúsínum og gulrótum,“ segir Tabasom.