Megum búast við allt að 800 smitum á dag

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Miðað við þróun kórónuveirufaraldursins í nágrannaríkjum okkar mega Íslendingar búast við því að sjá allt að 800 smit á dag á næstu vikum. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is.

Innlögnum á spítala gæti fjölgað næstu daga

Samkvæmt upplýsingum af covid.is greindust 286 með kórónuveiruna innanlands í gær og er það mesti fjöldi smita sem greinst hefur innanlands frá upphafi faraldursins. Inntur viðbragða segir Þórólfur þessa miklu fjölgun smita ekki koma sér á óvart.

„Ég hef bent á það áður að þetta gæti orðið þróunin, þ.e. að við myndum sjá fleiri tilfelli og það er að raungerast. Ef eitthvað er þá er kúrfan þó að fara hraðar upp en maður bjóst við.“

Síðan í byrjun desember hefur þeim sjúklingum sem hafa þurft að leggjast inn á spítala vegna kórónuveirunnar fækkað úr 24 niður í 12. Spurður segir Þórólfur einn hafa þurft að leggjast inn á spítala vegna Ómíkron-afbrigðis veirunnar fram að þessu en að þeim sjúklingum gæti farið fjölgandi á næstu dögum.

„Það sem við sjáum frá Danmörku er að 0,7% þeirra sem greinast hafa þurft að leggjast inn á spítala og yfirleitt hefur innlögnum fjölgað 1-2 vikum eftir að smitin aukast úti í samfélaginu. Miðað við það ættum við að sjá innlögnum vegna veirunnar fjölga núna um helgina og í byrjun næstu viku.

Ef af því verður, og auðvitað vonar maður svo sannarlega að svo verði ekki, þá gætum við farið að spá í hve vel bólusetningin verndar gegn alvarlegum veikindum. Það er það sem málið snýst um,“ segir hann.

5-6 innlagnir til viðbótar of mikið fyrir spítalann

Samkvæmt yfirliti Samgöngustofu yfir reglur á landamærum um sýnatöku og sóttkví frá og með 1. apríl 2021 skulu börn fædd 2005 eða síðar fara í sýnatöku á landamærum Íslands. Spurður segir Þórólfur það ekki hafa verið skoðað hvort breyta eigi þessum reglum.

Hvað megum við búast við að smitkúrfan fari hátt upp?

„Ég veit það ekki en aftur bendi ég á það sem er að gerast í Danmörku. Bólusetningarstaðan þar er svipuð og hún er hér og smitfjöldinn þar hefur farið ansi hátt upp. Við gætum búist við svona 600-800 smitum á dag ef við miðum þeirra höfðatölu við okkar. Það væri ansi slæmt. Um eitt prósent af því eru 5-6 innlagnir á dag og það er bara allt of mikið fyrir spítalann ef það yrði þannig í einhvern tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert