Nokkrir ráðherrar í ríkisstjórn mættu til ríkisstjórnarfundar í Ráðherrabústaðnum í morgun með grímur fyrir vitum. Venjulega eru ráðherrar ekki með grímu á meðan þeir ganga úr ráðherrabílunum og inn í bústaðinn. Það er því ljóst að einhverjir þeirra eru meira varir um sig en áður.
Þegar Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra mætti í morgun tilkynnti hann blaðamanni að aðgerðir innanlands yrðu hertar. Hann var með grímu yfir andlitinu.
Það var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hins vegar ekki og aðspurð vildi hún ekki tjá sig um skoðun sína á fyrirhuguðum takmörkunum. Hún vildi ræða það við ríkisstjórnina fyrst. Áslaug hefur verið einna fremst í flokki þeirra ráðamanna sem vilja slaka á takmörkunum.
Skoðana- og flokkssystir hennar, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, var heldur ekki með grímu. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, var ekki með grímu og Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra ekki heldur.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var með grímu þegar hún mætti, rétt eins og flokkssystkini hennar Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, og Svandís Svavarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, var með grímu ólíkt flokksbræðrum sínum þeim Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra og Ásmundi Einari Daðasyni, barna- og menntamálaráðherra.