Ráðherrar VG með grímu en sjálfstæðismenn ekki

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. Samsett mynd

Nokkrir ráðherrar í ríkisstjórn mættu til ríkisstjórnarfundar í Ráðherrabústaðnum í morgun með grímur fyrir vitum. Venjulega eru ráðherrar ekki með grímu á meðan þeir ganga úr ráðherrabílunum og inn í bústaðinn. Það er því ljóst að einhverjir þeirra eru meira varir um sig en áður.

Þegar Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra mætti í morgun tilkynnti hann blaðamanni að aðgerðir innanlands yrðu hertar. Hann var með grímu yfir andlitinu.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra fyrir utan Ráðherrabústaðinn.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra fyrir utan Ráðherrabústaðinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þeir sem hæst tala um afléttingar ekki með grímu

Það var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hins vegar ekki og aðspurð vildi hún ekki tjá sig um skoðun sína á fyrirhuguðum takmörkunum. Hún vildi ræða það við ríkisstjórnina fyrst. Áslaug hefur verið einna fremst í flokki þeirra ráðamanna sem vilja slaka á takmörkunum. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir mætir á ríkisstjórnarfund í morgun.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir mætir á ríkisstjórnarfund í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skoðana- og flokkssystir hennar, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, var heldur ekki með grímu. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, var ekki með grímu og Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra ekki heldur.

Lilja með grímu en ekki Ásmundur Einar og Sigurður Ingi

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var með grímu þegar hún mætti, rétt eins og flokkssystkini hennar Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, og Svandís Svavarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. 

Ásmundur Einar Daðason, barna- og menntamálaráðherra, mætir á ríkisstjórnarfund í …
Ásmundur Einar Daðason, barna- og menntamálaráðherra, mætir á ríkisstjórnarfund í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, var með grímu ólíkt flokksbræðrum sínum þeim Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra og Ásmundi Einari Daðasyni, barna- og menntamálaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert