Róbert Spanó kveður Mannréttindadómstólinn

Róbert Spanó kveður Mannréttindadómstól Evrópu á næsta ári.
Róbert Spanó kveður Mannréttindadómstól Evrópu á næsta ári. Ljósmynd/Aðsend

Staða íslensks dómara við Mannréttindadómstól Evrópu var nýverið auglýst í Lögbirtingablaðinu. Núverandi fulltrúi Íslands er Róbert Ragnar Spanó en hann var skipaður 1. nóvember 2013. Hann er jafnframt forseti dómstólsins. Lögum samkvæmt mun Róbert ekki geta sóst eftir endurkjöri.

Kjörtímabil Róberts rennur út hinn 31. október 2022. Evrópuráðið hefur því farið þess á leit að tilnefnd verði af Íslands hálfu þrjú dómaraefni en dómarar við Mannréttindadómstólinn eru kjörnir af þingi Evrópuráðsins af lista með þremur mönnum sem Ísland tilnefnir. Miðað er við að kosið verði á milli þeirra á þingi Evrópuráðsins að undangengnum viðtölum í undirnefnd þingsins sem fjallar um val dómara. 

Þeir sem hafa áhuga á að vera tilnefndir af Íslands hálfu sem dómaraefni við dómstólinn gefst kostur á að senda forsætisráðuneytinu umsókn sína eigi síðar en 14. janúar 2022. Er þess óskað að umsóknir berist á íslensku, ensku og jafnframt á frönsku.

Forsætisráðherra mun skipa fimm manna hæfnisnefnd til að meta umsóknir sem berast. Óskað verður eftir tilnefningum Hæstaréttar Íslands, dómstólasýslunnar, Lögmannafélags Íslands og utanríkisráðuneytisins. Forsætisráðherra mun skipa formann hæfnisnefndarinnar án tilnefningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert