Seldist á áttfalt hærra verði

„Þetta er þriðja elsta biblía prentuð á Íslandi, svokölluð Steinsbiblía. …
„Þetta er þriðja elsta biblía prentuð á Íslandi, svokölluð Steinsbiblía. Hún er prentuð á Hólum í Hjaltadal 1728. Þessi prentsaga okkar Íslendinga er náttúrulega stórkostleg á heimsvísu.“

Svokölluð Steinsbiblía fór á uppboði um helgina fyrir 1.140.000 krónur, sem er nánast áttfalt verðmat, en verðmatið á henni var 150.000 krónur.

Aldrei hefur bók selst á slíku yfirverði frá því að Bókin fór í samstarf við Gallerí Fold fyrir sjö árum að sögn Ara Gísla Bragasonar eiganda fyrirtækisins.

Niðurstöður uppboðsins má sjá á uppbod.is.

Lokauppboðið á árinu

„Það hefur aldrei verið svona mikil hækkun frá verðmatinu; þarna fer bókin á tíföldu verðmati,“ segir Ari og bætir við að yfirleitt fari bækurnar nálægt verðmatinu.

„Við reynum að hafa verðmatið nálægt því sem við teljum það vera. Við byggjum á 25 ára reynslu af verði, en svo getur það komið fyrir sem betur fer að við höfum rangt fyrir okkur í verðmati bæði til góðs og ills.“

Ari segir að þátttaka í bókauppboðum í ár hafi verið dræm en lokauppboðið á árinu hafi sem betur fer heppnast mjög vel.

„Þetta kom skemmtilega á óvart. Það var góð þátttaka og menn voru keppast þarna um nokkuð mörg númer.“

Prentsaga Íslendinga stórkostleg

Hann segir biblíuna sem seldist um helgina gríðarlega merka. 

„Þetta er þriðja elsta biblía prentuð á Íslandi, svokölluð Steinsbiblía. Hún er prentuð á Hólum í Hjaltadal 1728. Þessi prentsaga okkar Íslendinga er náttúrulega stórkostleg á heimsvísu.“

Ari segir að uppboð séu alls ekki fullkomin en lögmál framboðs og eftirspurnar kristallast í uppboðum. Sérstaklega getur verðið skotist upp þegar tveir keppast um einn hlut eins og gerðist í sölunni á biblíunni um helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert