Ein skemmtilegasta jólahefð Íslendinga er að koma saman og skera út laufabrauð sem er svo borðað með jólamatnum yfir hátíðirnar. Finnst mörgum laufabrauðið algjörlega ómissandi með hangikjötinu og öðrum hátíðarmat.
Vilhjálmur Þorláksson, framkvæmdastjóri Gæðabaksturs, segir að fyrirtækið selji um 700-800 þúsund laufabrauðskökur á ári.
„Það eru tvær og hálf á hvern Íslending liggur við,“ segir Vilhjálmur og hlær.
Hann segir sala á ósteiktu laufabrauði hafa aðeins dregist saman síðustu ár vegna kórónuveirufaraldursins, en á móti hafi sala á steiktu laufabrauði aukist.
„Þetta hefur verið líklegast um 70% steikt, en var svona 60/40 fyrir faraldurinn,“ segir hann.
„Laufabrauðsskurður hefur verið mikil samverustund í skólum en eins og gefur að skilja hefur það ekki verið hægt undanfarið.“
Vilhjálmur bætir við að undirbúningurinn byrji í september og verktíðarfólk sé þá ráðið inn.
„Við byrjum á ósteikta laufabrauðinu í september, um miðjan október byrjum við að steikja og laufabrauðið kemur í búðir í byrjun nóvember og síðan er steikt alla daga. Þannig er þetta, það er mikil vinna í kringum þetta allt saman. Eins og alltaf höfum við verið svo heppinn með fólk, það skiptir svo miklu máli og það leggjast allir á eitt hjá okkur að láta þetta ganga. Þetta gerir maður ekki nema með frábæru fólki, bæði í framleiðslu og dreifingu.“
Desembermánuður er stærstur hjá fyrirtækinu og veltan eykst um 15-20% vegna laufabrauðssölu en kostnaðurinn eykst mánuðina á undan að sögn Vilhjálms.
Spurður hvort laufabrauðsskortur hafi verið hér á landi segir Vilhjálmur að svo hafi sem betur fer ekki verið.
„7-9-13, við höfum verið svo heppin með fólk. Svo hefur ekkert smit komið upp hjá okkur.“