Útför Fjölnis Geirs Bragasonar, sem einnig er þekktur sem Fjölnir Tattú, verður að hætti ásatrúar og hefst í Fossvogskirkju klukkan eitt í dag. Í ljósi fjöldatakmarkana hafa aðstandendur hvatt vini hans til að fylgjast með útförinni í streymi sem hægt er að sjá hér að neðan.
Minningargreinar um Fjölni birtust í Morgunblaðinu í morgun.
Fjölnir fæddist 5. febrúar 1965. Hann hóf nám í forskóla í gamla Stýrimannaskólanum, fór síðan í Breiðagerðisskóla, Hlíðaskóla og tók stúdentspróf frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1990.
Hann útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 2000, þar sem lokaritgerð hans fjallaði um húðflúr, en hann starfaði við greinina frá árinu 1995.
Faðir Fjölnis var Bragi Ásgeirsson myndlistarmaður, sem lést árið 2016. Blaðamaður Morgunblaðsins ræddi við feðgana um listina, lífið og fleira árið 2009.