Vilhjálmur Árnason, varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, var í sóttkví þegar Óli Björn Kárason, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, greindist með Covid-19 í gær.
Vilhjálmur var nýlega kominn úr skimun þegar blaðamaður náði tali af honum og gerir ráð fyrir að losna úr sóttkvínni síðar í dag og geta mætt á þingfund síðdegis og þar með taka við stjórn þingflokksins í fjarveru Óla Björns.
Vilhjálmur segir að smit innan hópsins hafi ekki sett starf þingflokksins á hliðina þar sem Óli Björn hafi þegar verið í sóttkví þegar hann greindist. Óli Björn er sjöundi þingmaðurinn til þess að greinast með kórónuveiruna í hópsmiti innan þingsins.
Arnar Þór Jónsson, fyrrverandi héraðsdómari og varaþingmaður, tekur sæti á Alþingi í dag í stað Óla Björns, sama dag og tillögur sóttvarnalæknis um 20 manna samkomutakmarkanir og frekari hertar sóttvaraaðgerðir eru ræddar í ríkisstjórn og metfjöldi smita greinist.
Arnar Þór hefur verið gagnrýninn á störf sóttvarnalæknis. Hefur hann meðal annars kallað eftir afsögn Þórólfs og talað gegn bólusetningum við Covid-19.
Þá hefur Vilhjálmur sjálfur verið gagnrýninn á ferli ákvarðanatöku á sóttvörnum hér á landi. Hefur Vilhjálmur kallað eftir að fleiri álit séu tekin til greina en tillögur sóttvarnalæknis þegar stjórnvöld leggi takmarkanir á almenning.
„Það sem ég gagnrýni er ekki að það sé ráðist í aðgerðir, heldur hvernig aðgerðir, rökin á bak við þær og fyrirkomulag ákvarðanataka,“ segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is.
„Við höfum náð glæsilegum árangri í fyrstu, annarri og þriðju bólusetningu. Svo er veiran að þróast nákvæmlega eins og allir vildu, úr því að veikja fólk yfir í að halda sér á lífi. Það er verið að hafa allan árangur sem við náðum sem þjóð að engu án þess að við vitum markmiðið,“ segir Vilhjálmur sem sjálfur hefur verið að eiga við smit hjá börnum sínum. Hann segir að börnin hafi ekki hnerrað allan tímann en ekki óttast veikindi þar sem veiran sé alræmd.