Í ljósi hás verndargildis svæðis í Skerjafirði, þar sem Reykjavíkurborg áformar að gera 4,3 hektara landfyllingu, telur Umhverfisstofnun (Ust.) að byggð ætti alfarið að vera ofan fjöruborðs. Fyrirhuguð byggð yrði aðlöguð fjörunni eins og hún er í dag í stað þess að byggja í fjörunni og þurfa síðan að ráðast í lítt ígrundaðar framkvæmdir til að verja nýtt land sem mótað verður sunnan við fyrirhugaða landfyllingu.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum stofnunarinnar í umsögn um mat á umhverfisáhrifum vegna landfyllingarinnar. Þar segir að Ust. telji að fyrirhuguð landfylling í Skerjafirði muni hafa umtalsverð neikvæð umhverfisáhrif í för með sér þar sem fjörum og lífríki, sem séu mikilvæg svæði til fæðu ýmissa sjávardýra og fugla, sé varanlega raskað.
„Í ljósi þess að lítt röskuðum fjörum með miklu lífríki hefur stöðugt farið fækkandi í Reykjavík telur Umhverfisstofnun mikilvægt að slíkum svæðum sé ekki raskað frekar en orðið er heldur verði þau nýtt óbreytt sem útivistarsvæði þar sem fjölbreytt fuglalíf stóran hluta ársins getur aukið á upplifun svæðisins og verið til fróðleiks þar sem hér er um mikilvægt fuglasvæði að ræða,“ segir í umsögninni. Borgin gerir ráð fyrir ýmsum aðgerðum til að viðhalda nýrri fjöru sem ætlunin er að móta við suðurkant landfyllingarinnar.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.