Allir þingmenn skimaðir á hverjum degi

Alls hafa átta greinst smitaðir af kórónuveirunni á Alþingi en …
Alls hafa átta greinst smitaðir af kórónuveirunni á Alþingi en auk þeirra smita hafa fjórir starfsmenn þingflokka greinst smitaðir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, greindist í gær smitaður af Covid-19. Birgir er annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins til þess að greinast með Covid-19 undanfarna daga og sá áttundi á Alþingi sem er smitaður sem stendur. Auk þess hafa fjórir starfsmenn þingflokka greinst með kórónuveiruna.

Líneik Anna Sævarsdóttir, annar varaforseti Alþingis og þingmaður Framsóknarflokksins, sagðist í samtali við Morgunblaðið í gær vera bjartsýn á að þingið nái að klára helstu mál fyrir þinglok. „Það gengur allt, það kannski gengur eitthvað aðeins hægar en ég sé ekki annað en að það klárist allt sem þarf að klára fyrir áramót,“ sagði Líneik. Hún segist gera ráð fyrir að allir þingmenn verði skimaðir daglega en segist ekki hafa orðið vör við það að þingmenn séu smeykir að mæta til starfa vegna smitanna sem greinst hafa á Alþingi. Líneik segist þó halda að allir þingmenn og annað starfsfólk Alþingis fari varlega og segir engan hafa verið útsettan fyrir smiti í þingstörfum síðan fyrir helgi.

„Það eru fjáraukinn og fjárlögin sem er verið að gera áherslu á að klára aðra umræðuna um núna, eða það er verið að leggja áherslu á að klára fjáraukann í dag og aðra umræðuna um fjárlögin fyrir jól,“ sagði Líneik í gærkvöldi. „Svo eru einhver mál sem þarf að klára þá milli jóla og nýárs, þriðja umræðan um fjárlögin og svo einhver önnur mál.“

Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, greindist með Covid-19 á mánudag og varamaður hans, Arnar Þór Jónsson, tók sæti í hans stað á Alþingi í gær í fyrsta sinn og undirritaði að því tilefni drengskaparheit við stjórnarskránna.

Óli Björn sagðist í samtali við Morgunblaðið í gær vona að allt gengi vel á Alþingi þrátt fyrir stöðuna. „Það auðvitað skiptir verulega miklu máli. Það eru mál sem verður að afgreiða og undan því verður ekki vikist. Það mun reyna á þingmenn og ekki síst sem nú koma nýir til verka að afgreiða málin í sæmilegri sátt og samstöðu, þó að jafnvel kunni að vera ágreiningur í einstaka málum.“

Vilhjálmur Árnason, varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, var sjálfur að klára sóttkví þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gær og mun hann því taka við stjórn þingflokksins í fjarveru Óla Björns. Vilhjálmur segir að smit innan hópsins hafi ekki sett starf þingflokksins á hliðina þar sem Óli Björn hafi þegar verið í sóttkví þegar hann greindist.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert