Alþingi komið í jólafrí

Þingheimur er kominn í frí til 27. desember.
Þingheimur er kominn í frí til 27. desember. mbl.is/Ómar Óskarsson

Annarri umræðu um fjárlög ársins 2022 lauk á áttunda tímanum á Alþingi. Umræðurnar stóðu langt fram á nótt í gærkvöldi og hafa átt hug þingheims alls ásamt fjáraukalögum og svokölluðum bandormi og er þingið nú komið í jólafrí.

Vilja vita um fyrirheit ráðherra í kosningabaráttu

Tvær beiðnir um skýrslur voru sömuleiðis samþykktar í lok þessa síðasta þingfundar fyrir jól.

Sú fyrri um framlög styrki, viljayfirlýsingar, fyrirheit og samninga allra ráðherra, frá fulltrúum allra stjórnarandstöðuflokkanna, þar sem óskað er eftir að ríkisendurskoðandi taki saman skýrslu um ofangreint á tímabilinu frá frestun funda Alþingis 13. júní í sumar og til setningar nýs þings. Fyrsti flutningsmaður beiðninnar var Helga Vala Helgadóttir. 

Sú síðari beiðni um skýrslu frá innanríkisráðherra um undanþágur frá aldursákvæði hjúskapalaga. 

 Í skýrslunni komi m.a. fram hvaða verklag var viðhaft í hverju tilviki, þ.e. hvaða hlutlægu viðmið voru lögð til grundvallar við mat umsókna, hvaða gagna hafi verið aflað og hvernig ráðuneytið rækti rannsóknarskyldu sína til að ganga úr skugga um að ekki væri um þvingun að ræða áður en hver beiðni um undanþágu var samþykkt,“ segir í skýrslubeiðninni. Fyrsti flutningsmaður hennar er Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, sem áður hefur sent fyrirspurnir til ráðherra og vakið athygli á málinu. 

Nokkrir varaþingmenn sem tekið hafa sæti á þinginu í ljósi hópsmits á Alþingi fluttu jómfrúarræður sínar í umræðunum um fjárlögin, þeirra á meðal Arnar Þór Jónsson, Thomas Möller, Þórunn Wolfram og Elín Anna Gísladóttir.

Þá tóku Sigþrúður Ármann og Friðjón R. Friðjónsson, varaþingmenn Sjálfstæðisflokksins sæti á Alþingi í dag í fyrsta sinn. 

Þakkaði fjárlaganefnd góð störf

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar, lauk umræðunni í ræðu sinni með því að fara yfir þær, atriði sem spurt hafði verið út í og þakkaði fjárlaganefnd fyrir gott samstarf. 

„Þessi forgangsröðun í útgjaldaaukningu sem að ég hef hér farið yfir, og margt ert þá ósagt, er í samræmi við skýra stefnu nýrrar ríkisstjórnar um að byggja undir sterkt samfélag velferðar og jafnra tækifæra. Að lokum vil ég segja; eins hér hefur komið fram og allir átta sig á hefur tíminn til fjárlagavinnunnar verið afar knappur. Ég ítreka þakkir mínar til nefndar manna í fjárlaganefnd fyrir gott samstarf og hafa allan tímann verið samstarfsfús og viljað greiða leið þessarar vinnu og ég vona svo sannarlega að það gefi tóninn fyrir komandi kjörtímabil.“

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar. mbl.is/Arnþór

Líneik Anna Sævarsdóttir er starfandi forseti Alþingis. Líneik er annar varaforseti þingsins en bæði Birgir Ármannsson og Oddný Harðardóttir eru fjarri góðu gamni með í einangrun með Covid-19. 

Koma saman 27. desember

Líneik segir í samtali við mbl.is að stefnt sé að því að Alþingi komi saman að nýju þann 27. desember til að klára þriðju umræðu fjárlaga, bandormsins og annarra dagsetningamála. 

Líneik Anna Sævarsdóttir, er starfandi forseti Alþingis.
Líneik Anna Sævarsdóttir, er starfandi forseti Alþingis. mbl.is/Arnþór

Um raunir síðustu daga, þar sem einn þingmaður á fætur öðrum hefur greinst með Covd-19 í miðri fjárlagaumræðu skömmu fyrir jól segir Líneik að þrátt fyrir allt hafi gengið vel. 

„Þetta hefur allt gengið vel fyrir sig og þingflokksformenn og varaforsetar lagst á eitt með að láta þingstörfin ganga greiðlega fyrir sig,“ segir Líneik. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert