Björn Þorláksson hefur tekið við sem nýr framkvæmdastjóri verslunarinnar Húrra Reykjavík en Jón Davíð Davíðsson, einn stofnenda verslunarinnar lét af störfum í byrjun mánaðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá eigendum.
Jón Davíð stofnaði verslunina ásamt Sindra Snæ Jenssyni árið 2014 og hefur hann ásamt Sindra og fleirum einnig stofnað veitingastaðina Flatey og Yuzu, auk þess stofnuðu þeir nýlega næturklúbbinn Auto.
Segir þá í tilkynningunni að næstu skref Jóns snúi að enn frekari uppbyggingu Yuzu og Auto sem framkvæmdastjóri.
Björn kemur „beint úr unglingastarfi Húrra“. Hann hefur starfað í versluninni frá árinu 2015 í fullu starfi bæði í þjónustu og síðar á skrifstofu í störfum tengdum fjármálum.
Hann hefur þá með fram störfum lokið háskólagráðum í viðskipta- og tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Auk þess leikur Björn knattspyrnu með Knattspyrnufélagi Vesturbæjar.
Í tilkynningu segir þá einnig: „Við teljum okkur virkilega lánsöm enda hefur Björn sýnt einstaka leiðtogahæfileika og frumkvæði. Mun hann nú stýra daglegum rekstri Húrra og leiða uppbyggingarstarf fyrirtækisins á komandi árum.